Fréttir

Ályktun frá Iðjuþjálfafélagi Íslands

11.12.2012

Ályktun frá Iðjuþjálfafélagi Íslands.

Iðjuþjálfafélag Íslands fagnar þeirri umræðu sem átt hefur sér stað síðustu vikur um kjaramál nokkurra fagstétta. Ljóst er að iðjuþjálfar hafa dregist talsvert aftur úr í launum á síðustu árum. Það vekur sérstaka athygli að meðalhækkun launa iðjuþjálfa frá október 2008 er einungis 4,4% sem er langt fyrir neðan þær hækkanir sem kjarasamningar kveða á um. Þetta er með öllu óásættanlegt. Til samanburðar má nefna að laun BHM félaga hafa hækkað um 15% að meðaltali og laun á almennum markaði hafa hækkað langt umfram laun opinberra starfsmanna.

Iðjuþjálfar hafa síðustu ár þurft að ganga í gegnum miklar þrengingar í sínum störfum. Álag hefur aukist jafnt og þétt, kjör rýrnað auk þess sem stöðugar skipulagsbreytingar  hafa bitnað hart á stéttinni.

Ekki hefur verið gengið frá stofnanasamningi við Iðjuþjálfafélag Íslands fremur en við önnur félög sem starfa innan LSH og fordæmir stjórn Iðjuþjálfafélagsins því ástandi. Byrjunarlaun iðjuþjálfa á Landspítala eru nú 266.000 kr. á mánuði. Ljóst er að erfitt er að framfleyta fjölskyldu á þessum launum og má velta fyrir sér hvort að atgervisflótti fari að bresta á í stéttinni.

Í viðtali við Guðbjart Hannesson velferðaráðherra í kvöldfréttum RÚV um helgina sagði hann að tímabært væri að leiðrétta launakjör nokkurra stétta, þar á meðal iðjuþjálfa og  yrði það eitt að verkefnum næstu mánaða. Stjórn Iðjuþjálfafélags Ísland fagnar þeirri yfirlýsingu og hvetur ráðherra til að standa við orð sín og leiðrétta kjör heilbrigðisstétta sem sannanlega standa höllum fæti í launakjörum.