Fréttir

Guðrún Árnadóttir fékk akademíska nafnbót frá Háskóla Íslands

11.12.2014

Sautján starfsmenn Landspítala og Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins, sem sinna rannsóknum og kennslu, tóku við akademískum nafnbótum við Háskóla Íslands við athöfn í Hátíðasal skólans á dögunum.

Háskóli Íslands veitir akademíska nafnbót í tengslum við deildir heilbrigðisvísindasviðs á grundvelli hæfnisdóms dómnefndar og viðurkenningar á akademísku hæfi. Nafnbæturnar undirstrika enn fremur hlutverk háskólastarfsemi á stofnunum eins og Landspítala og tengsl menntunar heilbrigðisstarfsfólks og þjónustu við sjúklinga.

Nafnbæturnar sem veittar voru skiptast þannig á milli deilda að níu eru í læknadeild og átta í hjúkrunarfræðideild. Við athöfnina í Hátíðasal Háskóla Íslands hlutu níu starfsmenn Landspítala nafnbótina klínískur lektor, sex titillinn klínískur dósent og tveir nafnbótina klínískur prófessor.

Eftirtaldir tóku við akademískri nafnbót:

Hjúkrunarfræðideild: Anna Ólafía Sigurðardóttir, Arna Skúladóttir, Birna G. Jónsdóttir, Elísabet Konráðsdóttir, Helga Sif Friðjónsdóttir, Herdís Gunnarsdóttir, Lovísa Baldursdóttir og Rakel Björg Jónsdóttir.
Læknadeild: Anna Gunnarsdóttir, Halldór Kolbeinsson, Jón Snædal, Sigurveig Þ. Sigurðardóttir (áður klínískur lektor en nú dósent), Sólveig Jónsdóttir, Þorbjörn Jónsson, Evald Sæmundsen, Guðlaug Þórsdóttir og Guðrún Árnadóttir en þrjú þau síðastnefndu hlutu akademíska nafnbót árið 2012. Evald er fyrsti starfsmaður Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins sem hlýtur slíka nafnbót.

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, stýrði athöfninni og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, ávarpaði gesti í lokin. Fram kom í máli Kristínar að frá sjónarhóli Háskólans gegndu nafnbótarhafar mikilvægu hlutverki í tengslum við rannsóknir og klíníska þjónustu, bæði sem þátttakendur í stefnumótun og uppbyggingu klínískrar kennslu. Hún nefndi að samstarf Háskóla Íslands og Landspítala miðaði fyrst og fremst að því að efla kennslu og rannsóknir í heilbrigðisvísindagreinum og bæta þjónustu við sjúklinga og aðstandendur. Þannig væri veiting akademískra nafnbóta „afbragðs dæmi um samstarf þar sem báðir aðilar njóta góðs af og ná lengra með því að samnýta krafta. Saman leggja þessar stofnanir af mörkum til menntunar og rannsókna sem uppfylla ströngustu kröfur samkvæmt alþjóðlegum mælikvörðum. Með rannsóknarsamstarfinu er í mörgum tilfellum lagt til nýsköpunar í heilbrigðisþjónustu og saman standa stofnanirnar að Hugverkanefnd sem aðstoðar starfsfólk við hagnýtingu hugverka.“