Skólatöskudagar
Markmið Skólatöskudaga
Markmið Skólatöskudaga er fyrst og fremst forvarnargildi verkefnisins. Vöðvabólgur, bakverkir og höfuðverkir eru vaxandi einkenni í nútíma þjóðfélagi og sjá má fleiri og tíðari einkenni með hækkandi aldri. Þetta hefur beint sjónum iðjuþjálfa að vinnuvistfræði barna. Erfitt er að segja hvað veldur vandanum þar sem margir þættir spila saman. Þar má nefna aukin kyrrseta, röng vinnuaðstaða hvort sem er í skóla eða heima, minni hreyfing og þungar byrðar. Fræðsla sem þessi er því aðeins einn þáttur að bættri heilsu og líðan. Auk þess að vera forvarnarverkefni er átakið jafnframt markaðssetning fyrir fagið. Með kynningu á iðjuþjálfun er samfélagið gert meðvitaðra um gildi þjónustu iðjuþjálfa og möguleikum á að vinna frekar að bættri heilsu og líðan almennings.
Hugmynd Fræðslu- og kynningarnefndar er að iðjuþjálfar heimsæki grunnskóla landsins, verði með fræðslu um notkun skólatöskunnar og vigti barn og skólatösku til að kanna hvort þyngd töskunnar sé hæfileg fyrir barnið (ath. ekki nauðsynlegt að vigta börnin)
Hugmyndin er sú að farið verði í 1, 3 og 6 bekk. Þá náum við frekar til allra barna á ákveðnum aldri og Skólatöskudagarnir verða markvissari. Í minni skólum t.d. skólum út á landi, hvetjum við þó til þess að farið verði í alla bekki.
Hvað felst í þátttöku í skólatöskudögum:
- Fara inn á slóðina http://www.ii.is/felagid/starfsemi/skolatoskudagar/skraning
- Sækja/fá send gögn og undirbúa skóla fyrir heimsóknina.
- Fræða nemendur og vigta skólatöskur (vigtun er val).
- Taka saman vigtunargögn og skila til nefndar.
Reynst hefur vel að tveir til þrír iðjuþjálfar/iðjuþjálfanemar vinni saman þar sem töluverð vinna er í kringum fræðslu, vigtun og skráningu upplýsinga. Ekki er ætlunin að iðjuþjálfar taki heila viku frá störfum í verkefnið heldur finni dag eða hluta úr degi þessa viku sem hentar til að heimsækja skóla.
Það hefur sýnt sig að ekki skiptir máli innan hvaða sviðs iðjuþjálfar starfa sem taka þátt – við höfum öll eitthvað til málanna að leggja.
Nánari upplýsingar má fá hjá Kynningar- og fræðslunefnd .