Fréttir

Iðjuþjálfar létu sig ekki vanta

5.6.2019

Í tilefni af 20 ára afmæli Heilbrigðisstofnunar Austurlands á þessu ári var ákveðið að hafa árlegan Vísinda- og fræðadag opinn almenningi en hann var haldinn fimmtudaginn 23. maí síðastliðinn í Valaskjálf á Egilsstöðum. Fagráð stofnunarinnar sá um allan undirbúning en í því eru báðir iðjuþjálfar HSA þær Eygló Daníelsdóttir og Gullveig Ösp Magnadóttir. 

Forseti Íslands, hr Guðni Th. Jóhannesson kom og setti daginn og heiðraði fyrsta framkvæmdastjóra lækninga fyrir störf sín. Dagskráin var fjölbreytt, þar sem niðurstöður rannsókna starfsmanna voru kynntar auk þess sem utanaðkomandi fagmenn úr ýmsum stéttum voru með erindi. Þar á meðal var Berglind Indriðadóttir iðjuþjálfi hjá Farsælli öldrun – þekkingarmiðstöð sem flutti erindi um Lífssögu og notkun hennar inni á hjúkrunarheimilum. 

Vakti erindi hennar góðar umræður sem hafa haldið áfram innan stofnunarinnar að loknum deginum. Á síðasta ári vorum við líka svo heppin að fá til okkar iðjuþjálfa með fyrirlestur en það var Stefán E. Hafsteinsson hjá Öryggismiðstöðinni sem fjallaði um tæknilausnir í velferðarþjónustu. Vonandi getum við haldið áfram að fá til okkar góða fyrirlesara úr stéttinni, við vitum að þeir eru margir til.

Á myndinni frá vinstri: Berglind Indriðadóttir, Ásdís Sigurjónsdóttir, Linda Pehrson, Gullveig Ösp Magnadóttir og Eygló Daníelsdóttir iðjuþjálfar. 

Fraedadagar-HSAAðsend frétt: Eygló Daníelsdóttir