Fréttir

Jólakveðja

Jólakveðja frá formanni IÞÍ

22.12.2021

Kæru félagar!

Aðventan er hátíðleg, oftast hlaðin tilhlökkun og viðburðum af ýmsu tagi. Hún er engu að síður dimm, einkennist af annríki og blendnum tilfinningum, oft ljúfsárum minningum. Þriðja vaktin er í algleymingi því margt þarf að skipuleggja og hugræna byrðin getur trompað gleðina dagana fyrir jól. Þessu fylgir álag, sérstaklega núna þegar heimsfaraldurinn tekur á sig nýja mynd, ómíkron sækir í sig veðrið og jólavenjurnar eru í óvissu vegna sóttvarnatakmarkana.

Þegar nær dregur jólum þá reynir á að hafa jafnvægi í iðju hversdagsins, jafnvægi milli þess sem er ætlast til af okkur, við þurfum að gera og þess sem okkur langar til að inna af hendi.

Takk öll sem hafið staðið vaktina á vettvangi á liðnu ári. Takk þið öll sem hafið starfað í þágu félagins og fagsins okkar allra.

Ég óska ykkur gleðilegra jóla og áramóta. Megi nýja árið verða fullt af eflandi og gefandi iðju - áfram iðjuþjálfun!

Þóra Leósdóttir, formaður Iðjuþjálfafélags Íslands