Fréttir

Nýir iðjuþjálfar útskrifast

21.6.2019

Þann 15. júní síðast liðinn fór fram brautskráning kandídata frá Háskólanum á Akureyri (HA). Af heilbrigðisvísindasviði útskrifuðust sjö kandídatar úr iðjuþjálfunarfræði. Það var hátíðleg stund þegar verðandi iðjuþjálfar tóku við skírteinum sínum. Eva Snæbjarnardóttir fékk viðurkenningu frá Iðjuþjálfafélagi Íslands fyrir hæstu einkunn. Við óskum henni sem og öðrum kandídötum innilega til hamingju en eftirfarandi voru einnig brautskráðar: Bára Lind Hafsteinsdóttir, Bylgja Þrastardóttir, Hildur Sverrisdóttir, Kolbrún Halla Guðjónsdóttir, Kristín Brynja Árnadóttir og Margrét Jensína Sigurðardóttir.

64703033_2481243661907211_5682259573902147584_o

Breytt námskrá
Innleiðing nýrrar námskrár við iðjuþjálfunarfræðideildina er vel á veg komin og hafa fyrstu tvö árin þegar verið kennd samkvæmt henni. Nýja námsskráin skiptist í þriggja ára BS nám í iðjuþjálfunarfræði og eins árs starfsréttindanám í iðjuþjálfun á meistarastigi. Fyrsti hópurinn lýkur slíkri BS gráðu næsta vor og þá útskrifast jafnframt síðasti árgangurinn sem stundaði nám samkvæmt gamla fyrirkomulaginu. Í nýrri námsleið fer vettvangsnám fram í stuttum tímabilum sem tilheyra ákveðnum námskeiðum og er í formi heimsókna á ólíka staði þar sem nemendur viða að sér þekkingu í tengslum við áherslur námskeiðsins. Megin þungi vettvangsnámsins fer fram í starfsréttindanáminu og spennandi hugmyndir eru um fyrirkomulag vettvangsnámsins. Þær fela meðal annars í sér að skapa námssamfélag með það að markmiði að tengja betur starfsvettvang iðjuþjálfa og skóla. Frekari þróun og undirbúningur vettvangsnáms á starfsréttindanámi mun fara fram næsta vetur og stefnt er að því að kynna fyrirkomulagið vorið 2020.

Iðjuþjálfar eru eftirsóttir
Mikil eftirspurn er eftir starfskröftum iðjuþjálfa víða um heim og ekkert atvinnuleysi mælist í stéttinni hér á landi. Sá fjöldi nemenda sem hefur útskrifast undanfarin ár nægir ekki til að anna eftirspurn. Við höfum fulla trú á því að ný námsskrá sé einn af lyklunum til þess að þetta breytist. Öflug samvinna starfandi iðjuþjálfa, Iðjuþjálfafélags Íslands og HA skiptir afar miklu til að hlúa að faggreininni, byggja námið upp og þróa það áfram. Undanfarin ár hefur tækninni fleygt hratt fram. Í HA er til staðar mikil þekking á sveigjanlegu námi (fjarnámi) og gott umhverfi til að bjóða upp á símenntun fyrir starfandi iðjuþjálfa.

Fagstéttarfélag á fimmtugsaldri
Iðjuþjálfafélag Íslands (IÞÍ) var stofnað 1976 og er fag- og stéttarfélag iðjuþjálfa hér á landi. Hlutverk þess er meðal annars að standa vörð um hagsmuni iðjuþjálfa og efla samvinnu og samheldni innan stéttarinnar. Það hefur einnig hlutverki að gegna við að efla þróun og gæði iðjuþjálfunar, stuðla að bættri menntun og aukinni fagvitund iðjuþjálfa. Ennfremur að kynna menntun og störf iðjuþjálfa og eiga samstarf við iðjuþjálfa á erlendri grundu. Síðast en ekki síst er það markmið félagsins að vinna að heilbrigði landsmanna. Félagsmenn IÞÍ eru um 350 talsins. Félagið er aðili að Heimssambandi iðjuþjálfa og Iðjuþjálfanefnd Evrópuþjóða. Að auki er reglulegt samstarf við Norrænu iðjuþjálfafélögin. IÞÍ er eitt aðildarfélaga Bandalags háskólamanna (BHM) og félagsmenn með fulla aðild njóta þeirra réttinda sem sjóðir BHM veita. Við bjóðum nýja iðjuþjálfa hjartanlega velkomna í félagið. Allar nánari upplýsingar um félagið og hvernig sækja skal um aðild er að finna á www.ii.is.

21. júní 2019
Þóra Leósdóttir formaður Iðjuþjálfafélags Íslands
Hulda Þórey Gísladóttir verkefnastjóri vettvangsnáms í iðjuþjálfunarfræði
Sólrún Óladóttir deildarformaður iðjuþjálfunarfræðideildar