Fréttir

Sumarkveðja frá Háskólanum á Akureyri

12.6.2019

Vor-2019-haKæri iðjuþjálfi.
Við viljum byrja á að þakka öllum þeim sem hafa átt samvinnu við iðjuþjálfunarfræðideild HA á skólaárinu sem er að ljúka. Þessi samvinna hefur verið í ýmsu formi svo sem leiðsögn nemenda í vettvangsnámi, móttöku BS nema í iðjuþjálfunarfræði, stundakennslu og samtölum við okkur sem störfum við HA.

Eins og flestum ætti að vera kunnugt er verið að innleiða nýja námsskrá við iðjuþjálfunarfræðideildina, hægt er að kynna sér hana á heimasíðu skólans undir iðjuþjálfunarfræði .

Nýja námsskráin skiptist í þriggja ára BS nám í iðjuþjálfunarfræði og eins árs starfsréttindanám í iðjuþjálfun á meistarastigi. Nú hafa fyrstu tvö árin verið kennd samkvæmt nýrri námsskrá og lýkur fyrsti hópurinn BS gráðu í iðjuþjálfunarfræði vorið 2020 og þá útskrifast jafnframt síðasti árgangurinn í eldri námsskrá. Núna í haust verða öll þrjú námsárin í þessari nýju námsleið kennd. Í námsleiðinni fer vettvangsnám fram í stuttum tímabilum sem tilheyra ákveðnum námskeiðum og er í formi heimsókna á ólíka staði þar sem nemendur viða að sér þekkingu í tengslum við áherslur námskeiðsins.

Fyrsti hópurinn í nýrri námsskrá útskrifast úr eins starfsréttindanámi, vorið 2021 (fyrst kennt veturinn 2020-2021). Megin þungi vettvangsnámsins fer fram í starfsréttindanáminu (800 tímar) og spennandi hugmyndir eru um fyrirkomulag vettvangsnámsins sem fela m.a. í sér að skapa námssamfélag með það að markmiði að tengja starfsvettvang iðjuþjálfa og skóla betur saman. Frekari þróun og undirbúningur vettvangsnáms á starfsréttindanámi mun fara fram næsta vetur og stefnt er að kynna fyrirkomulagið vorið 2020.

Mikil eftirspurn er eftir starfskröftum iðjuþjálfa en sá fjöldi nemenda sem hefur útskrifast undanfarin ár er ekki nægjanlegur til að anna eftirspurninni. Okkur er mikið í mun að það breytist og höfum trú á að ný námsskrá sé einn af lyklunum til þess. Það sem hins vegar skiptir líka verulegu máli er öflugt samstarf starfandi iðjuþjálfa, Iðjuþjálfafélags Íslands og HA til að hlúa að faginu okkar og byggja það áfram sameiginlega upp. Undanfarið hefur tækninni fleygt hratt fram. Í HA er til staðar góð þekking á sveigjanlegu námi (fjarnámi) og gott umhverfi til að bjóða upp á símenntuna fyrir iðjuþjálfa. Vonandi getum við í HA boðið iðjuþjálfum upp á námskeið í Símenntun áður en langt um líður.

Við hlökkum til áframhaldandi samstarfs á þessum spennandi breytingartímum.

Sumarkveðjur,
Hulda Þórey Gísladóttir verkefnastjóri vettvangsnáms í iðjuþjálfunarfræði og
Sólrún Óladóttir, deildarformaður iðjuþjálfunarfræðideildar