Fréttir

30 ár frá útgáfu bókar Dr. Guðrúnar Árnadóttur „The Brain and Behavior“

2.11.2020

Fyrr í þessum mánuði voru liðin 30 ár frá útgáfudegi bókar Guðrúnar Árnadóttur „The Brain and Behavior: Assessing Cortical Dysfunction through Activities of Daily Livingˮ. Ógrynni af efni hefur verið gefið út með umfjöllun og tilvitnunum í efni bókarinnar, þeirra á meðal er fjöldi nýrra og nýlegra fræðibóka um iðjuþjálfun. Bókin var gefin út hjá C.V. Mosby bókaforlaginu í Bandaríkjunum, sem nú er Elsevier. Þó atburðarins hafi ekki verið minnst sérstaklega hefur ýmislegt nýtt gerst í þessum október mánuði sem byggir á þessum 30 ára gamla viðburði. Þar má meðal annars nefna:

Þann 1. október kom út 5. útgáfa bókarinnar „Stroke Rehabilitation: A Function-Based Approachˮ hjá Elsevier. Í bókinni, sem er í stóru broti er 40 bls. kafli um hugmyndafræðina að baki A-ONE matstækisins og hvernig nota megi klíníska rökleiðslu byggða á hugmyndafræðinni við óstaðlað áhorfsmat. Kaflinn ber heitið „The Impact of Neurobehavioral Deficits on Activities of Daily Livingˮ. Margir aðrir kaflar nýrrar útgáfu þessarar bókar eru myndskreyttir með efni úr upphaflegu Brain and Behavior bókinni.

Í Japan kom út fræðibók fyrr í þessum mánuði um hugmyndafræði í iðjuþjálfun og þar er sér kafli um A-ONE. Kaflann skrifaði Dr. Asako Matsubara. Bókin og kaflinn nefnast á frummálinu: 松原麻子:A-ONE.作業療法理論の教科書,メジカルビュー.

Árlegt málþing A-ONE þjálfaðra iðjuþjálfa í Japan fór einnig fram í mánuðinum, í þetta skipti á Zoom. Fluttu þar meðal annars erindi prófessorar frá háskólum í Hiroshima og Osaka.

Þann 7. október síðast liðinn var veggspjaldið „Notendahugbúnaður í endurhæfingu: Frá raðtölum í mælitölurˮ sýnt á málþinginu „Vísindi að haustiˮ. Veggspjaldið gerir meðal annars grein fyrir nýjum rannsóknum með Rasch greiningu á ADL kvarða A-ONE og uppbyggingu notendahugbúnaðar fyrir matstækið. Ágrip þess var einnig birt í Læknablaðinu, 106(10)2020, fylgiriti 104. 

Rannsóknarskýrsla var send Nýsköpunarsjóði Námsmanna hjá Rannís um síðustu mánaðarmót fjallaði um Notendahugbúnað fyrir iðjumatstækið „Activity-focused Occupation-based Neurobehavioral Evaluation (A-ONE)”. Verkefnið var unnið með styrk frá sjóðnum.

Danir fóru í gang með fimm daga A-ONE námskeið á Jótlandi sem frestað hafði verið í vor og hófu þeir einnig undirbúning fyrir þróun myndefnis fyrir A-TWO námskeið.

Að lokum má nefna að iðjuþjálfanemar Háskólans á Akureyri tóku þátt í Zoom fundi sem byggður var á bókinni „The Brain and Behaviorˮ í samtals átta klukkustundir þann 28. október.

Við óskum Guðrúnu innilega til hamingju með þessi tímamót og erum þakklát fyrir ómetanlegt framlag hennar til iðjuþjálfunar á heimsvísu.