Fagþróunarsjóður IÞÍ

Fagrþóunarsjóður var stofnaður samkvæmt samþykkt aðalfundar IÞÍ þann 21. mars 1998 og hét þá fræðslusjóður. Heiti sjóðsins var breytt með nýjum lögum IÞÍ sem samþykkt voru á aðalfundi félagsins 12. mars 2021. Stjórn IÞÍ skipar þrjá fulltrúa í sjóðsstjórn, til þriggja ára í senn, og skal skipunin tilkynnt á aðalfundi félagsins. Úthlutun úr sjóðnum fer fram tvisvar á ári. Skuldlausir félagar með fulla aðild eða fagaðild að IÞÍ, geta sótt um styrk úr fagþróunarsjóði. Félagar með nemendaaðild eiga ekki rétt á styrkjum úr sjóðnum.

Sjóðsstjórnin velur sér formann sem ber ábyrgð á að kalla stjórnina saman vegna úthlutana úr sjóðnum. Formaður sér einnig um að skrifa fundargerðir og tilkynna skriflega styrkþegum og framkvæmdastjóra SIGL þjónustuskrifstofu um úthlutanir. Sjóðsstjórn ber einnig að upplýsa umsækjendur sem synjað er um styrk úr sjóðnum.

 Umsókn
Hér er umsóknareyðublað  fyrir styrkumsóknir. Eyðublaðið er á Word formi. Umsækjendur hlaða því niður í sína tölvu, fylla út og vista að því loknu á pdf formi til að senda umsóknina þannig inn rafrænt. Nánari upplýsingar og netfang er að finna í skjalinu. Umsóknir skulu berast fyrir 15. apríl og 15. október ár hvert.

Tilgangur 

Að efla framgang iðjuþjálfunar hér á landi og styrkja innra starf félagsins.

Markmið

Að styrkja iðjuþjálfa vegna rannsókna og þróunarverkefna, fræðslu- og kynningarefnis auk þátttöku á námskeiðum í þágu nefnda félagsins. Sjóðnum er ekki ætlað að styrkja iðjuþjálfa til endurmenntunar í eigin þágu.

Hlutverk og ábyrgð stjórnar Fagþróunarsjóðs

Að fjalla um umsóknir og úthluta styrkjum úr  tvisvar á ári, 1. maí og 1. nóvember.  Við úthlutun er tekið mið af verklagsreglum, sem sjóðsstjórnin hefur sett sér og þeirri upphæð sem er til úthlutunar hverju sinni. 

Samstarf

Stjórn fagþróunarsjóðs hefur samskipti við þá iðjuþjálfa sem sækja um styrk úr sjóðnum. Samstarf er einnig við framkvæmdastjóra SIGL vegna rekstrarkostnaðar sjóðsins og úthlutunar hverju sinni. Framkvæmdastjóri SIGL sér um að greiða út styrkina.

 Formaður stjórnar fagþróunarsjóðs er:  Gunnhildur Gísladóttir


Starfsreglur fagþróunarsjóðs IÞÍ

Starfsreglur þessar voru samþykktar á aðalfundi IÞÍ 2005. Í mars 2021 var heiti sjóðsins breytt og hafa starfsreglurnar verið uppfærðar með tilliti til þess.

 1. Heiti sjóðsins og varsla:
1.1. Sjóðurinn heitir Fagþróunarsjóður Iðjuþjálfafélags Íslands. Hann er í vörslu gjaldkera félagsins.

2. Markmið fagþróunarsjóðs:
2.1. Markmið sjóðsins er að efla framgang iðjuþjálfunar og að styrkja innra starf félagsins.   

3. Stjórn fagþróunarsjóðs:
3.1. Stjórn fagþróunarsjóðs er skipuð á aðalfundi, skv. lögum IÞÍ 8. grein.
3.2. Stjórn fagþróunarsjóðs skal halda fundagerðabók      

4. Tekjur og gjöld fagþróunarsjóðs:
4.1. Ákveðin upphæð, kr. 300.000, á ári hverju, sem rennur af tekjum IÞÍ. Upphæðin er endurskoðuð á tveggja ára fresti.
4.2. Frjáls framlög velunnara sjóðsins.
4.3. Gjöld Fræðslusjóðs (póstburðargjöld, bréfsefni, umslög og fl.) greiðast af rekstrarfé IÞÍ.     

5. Umsóknir um styrki:
5.1. Styrkir verða veittir tvisvar sinnum á ári. Umsóknum skal skilað til stjórnar fagþróunarsjóðs fyrir 15. apríl eða 15. október, sjá leiðbeiningar. Rétt til að sækja um styrki eiga þeir sem eiga fulla aðild eða fagaðild að IÞÍ og eru skuldlausir við félagið.      

6. Styrkveitingar:
6.1. Styrkhæf verkefni teljast meðal annars rannsóknir, þróunarverkefni, fræðslu/kynningarefni, gerð bæklinga og annað sem stuðlað getur að framgangi iðjuþjálfunar. Þar með teljast styrkir til að sækja námskeið sem nýtast hinum ýmsu nefndum og faghópum, sem starfa á vegum félagsins og koma innra starfi þess til góða.      

7. Úthlutun:
7.1. Stjórn fagþróunarsjóðs gerir grein fyrir vali styrkþega eigi síðar en 1. maí og 1. nóvember ár hvert.   
7.2. Skrifstofa SIGL annast greiðslu styrkja að fenginni staðfestingu stjórnar fagþróunarsjóðs. 

8. Ágreiningur um úrskurð; vanhæfi stjórnar fagþróunarsjóðs:   
8.1. Úrskurði stjórnar fagþróunarsjóðs um úthlutun er ekki hægt að áfrýja, en óska má eftir skriflegum rökstuðningi fyrir ákvörðun.
8.2. Ef fulltrúi í stjórn fagþróunarsjóðs á hagsmuna að gæta við úthlutun skal varamaður úr stjórn IÞÍ taka sæti hans í nefndinni.      

9. Gildistaka starfsreglna og breytingar:   
9.1. Starfsreglur þessar taka gildi þann 4. mars 2005.
9.2. Breytingar á starfsreglum eru háðar samþykki aðalfundar IÞÍ.

Til baka Senda grein