Iðjuþjálfun á geðheilbrigðissviði

Það var á vormánuðum árið 2004 að sú hugmynd vaknaði að koma á fót faghópi iðjuþjálfa á geðsviði. Hugmyndin var að þessi faghópur gæti t.d. verið vettvangur fyrir umræður, skoðanaskipti og miðlun á faglegri þekkingu og nýjungum á geðsviðinu. Einnig var hugmyndin sú að hópurinn yrði með svipuðu sniði og aðrir faghópar innan Iðjuþjálfafélagsins. Því var sendur út tölvupóstur til allra félagsmanna til að kanna undirtektir. Stofnfundur var haldinn 1. júní 2004 og þá þegar höfðu 14 félagsmenn sýnt faghópnum áhuga. Fundurinn var nýttur til stefnumótunar þar sem m.a. var rætt hver markmið og væntingar hópsins ættu að vera, einkenni iðjuþjálfunar á geðsviði, styrk- og veikleika. Einnig var rætt hvaða þætti iðjuþjálfar vildu helst bæta eða efla hjá sér sem fagaðilar. Markmið og væntingar faghópsins voru m.a. að iðjuþjálfar á geðsviði vilja skýra hlutverk sitt, hafa skilvirkari skráningu, skerpa á hugmyndafræði og skoða gagnreynda þjónustu. Á þessum stofnfundi kom einnig fram að einkenni iðjuþjálfunar á geðsviði er að þjónustan er skjólstæðingsmiðuð, sveigjanleg og þarf að geta tekið á ýmsum óvæntum uppákomum. Styrkleikar iðjuþjálfunar á geðsviði eru fjölbreytt verkefni þar sem tekist er á við vandann í aðstæðunum og mismunandi meðferðarstaðir notaðir eins og vinnustaðir, opinberar stofnanir og jafnvel heimili skjólstæðinga. Veikleikar eru fyrst og fremst þeir að eftirfylgd er ábótavant og það að vera sýnilegri í samfélaginu. Fram kom að það sem iðjuþjálfarnir í faghópnum vildu helst bæta/efla hjá sér sem fagmenn var m.a. viðtalstækni, árangursmælingar og skoða áhrif meðvirkni í meðferð skjólstæðinga með geðraskanir.


Á stofnfundinum varð nafnið á faghópnum til, Giðjurnar, sem vísar til geð-iðjuþjálfa. Giðjunafnið kom fyrst fram í starfshópnum Hugarafli sem Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi í Heilsugæslunni í Reykjavík, kynnti svo fyrir faghópnum og var samþykkt einróma! Um haustið var félagaskrá Giðjanna orðin um 20 manns og fram að áramótum voru haldnir þrír fundir þar sem farið var yfir mörg spennandi málefni. Á fyrsta fundinum sagði Auður Axelsdóttir okkur frá reynslu sinni að vinna með einstaklingum með geðraskanir utan stofnunar. Hún kynnti okkur fyrir hugtakinu Empowerment eða Valdeflingu þar sem unnið er á jafningjagrundvelli. Á öðrum fundinum sögðu Guðbjörg Guðmundsdóttir, þá starfandi iðjuþjálfi á Reykjalundi og Kristín Björg Viggósdóttir, þá starfandi sem iðjuþjálfi í Klúbbnum Geysi, okkur frá gagnreyndri þjónustu, um notkun hennar og ávinning. Á þriðja fundinum kynntu svo Elísa Arnars Ólafsdóttir, iðjuþjálfi á Reykjalundi og Guðbjörg Guðmundsdóttir okkur fyrir áhorfsmatinu ACIS sem metur færniþætti er varða boðskipti og samskipti.

Í byrjun árs 2005 kynnti Petrea Guðný Sigurðardóttir, iðjuþjálfi á Akureyri, grein um gagnreynda þjónustu. Vorið var svo notað til frekari stefnumótunar fyrir faghópinn þar sem m.a. var rætt um markmiðssetningu, væntingar og tilgang faghópsins. Ýmsar áhugaverðar hugmyndir komu fram sem hægt væri að nýta á komandi afmælisári Iðjuþjálfafélagsins. Síðastliðið haust og fram að áramótum var tíminn nýttur til fræðslu. Sonja Stelly Gústafsdóttir og Erla Björnsdóttir, iðjuþjálfar á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, kynntu fræðsluefni fyrir fólk með geðraskanir varðandi hreyfingu og mataræði sem unnið var af þverfaglegu teymi í Danmörku. Sigríður Jónsdóttir, iðjuþjálfi á Reykjalundi, hélt svo kynningu á gátlistanum OSA (Occupational Self Assessment; Mat á eigin iðju) sem er sjálfsmat skjólstæðinga á eigin iðju. Endapunktur ársins 2005 var vinnufundur faghópsins vegna málþings sem haldið var í mars sl. í tilefni af 30 ára afmælisári Iðjuþjálfafélags Íslands.

Það sem af er árinu 2006 hefur undirbúningur fyrir málþingið skipað stóran sess í fundahöldunum Giðjanna. Málþingið tókst vonum framar og fram komu margir góðir fyrirlesarar. Á þessum tveimur starfsárum hefur ýmislegt verið rætt og ritað og reynt að koma til móts við starfandi iðjuþjálfa á geðsviði með tilliti til markmiða, væntinga, umræðna og skoðanaskipta. Það er því von okkar að faghópurinn Giðjurnar haldi uppteknum hætti og starfi áfram innan Iðjuþjálfafélagsins.

Til baka Senda grein