Leiðbeiningar
Upplýsingar um Tilgang og Markmið
Upplýsingar um ferlið má finna í meðfylgjandi bæklingum ríkis og Reykjavíkurborgar og á eftirfarandi vefsíðum:
- Fyrir starfsfólk ríkisins: https://betrivinnutimi.is/verkfaerakista/
- Fyrir starfsfólk sveitarfélaga: https://www.samband.is/verkefnin/kjara-og-starfsmannamal/betri-vinnutimi/
- Fyrir starfsfólk Reykjavíkurborgar: https://reykjavik.is/betrivinnutimi/itarefni
- Leiðbeiningabæklingur Reykjavíkurborg 2020
- Leiðbeiningabæklingur ríki 2020
- Fræðslumyndband - umbótasamtal um betri vinnutíma
Meginmarkmiðið þegar stytting vinnuvikunnar er undirbúin á hverjum vinnustað er að finna leiðir til að endurskipuleggja vinnuna þannig að hægt sé að stytta vinnuvikuna niður í 36 stundir á viku. Þessar breytingar munu stuðla að betri heilsu, betri samræmingu vinnu og einkalífs og auknum lífsgæðum starfsfólks. Til að vel takist til verður að tryggja góðan undirbúning og þátttöku allra á vinnustaðnum, enda enginn sem þekkir verkefnin betur en starfsfólkið sem sinnir þeim alla daga.
Vinnutímanefnd leiðir verkið á hverjum vinnustað
Fyrsta skrefið í átt að því að stytta vinnuvikuna er að stofna vinnutímanefnd með fulltrúum starfsfólks og stjórnenda á hverjum vinnustað sem undirbýr breytinguna og leiðir samtalið á vinnustaðnum. Í kjarasamningum þ.e. fylgiskjali um styttingu vinnutíma dagvinnufólks er skýrt kveðið á um að forstöðumenn eða aðrir til þess bærir stjórnendur stofnana og sviða skulu hafa frumkvæði að stofnun vinnutímanefnda. Sú nefnd boðar síðan til samtals þar sem hún skapar umræðuvettvang fyrir allt starfsfólk um tækifæri og nýjar leiðir í bættu vinnutímafyrirkomulagi.
Í því samtali þarf að velta upp spurningum á borð við hvernig má bæta skipulag vinnunnar, verklag, samvinnu, verkefnadreifingu, stjórnun og vinnubúnað eða nýta tæknina betur til að vinna styttri vinnuviku. Samhliða þarf að tryggja að starfsfólk geti veitt jafn góða þjónustu og fyrir breytingarnar. Þá þarf að ræða fyrirkomulag styttingarinnar á vinnustaðnum, til dæmis hvort styttingin sé tekin út daglega eða vikulega og þá á hvaða dögum og tíma dags.
Reynslan af tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar hjá ríki og Reykjavíkurborg sýnir að starfsánægja verður meiri. Starfsfólk sýnir aukið frumkvæði í vinnunni og jákvæðar breytingar endurspeglast í breyttum starfsháttum. Þannig leggist allir á eitt að finna tækifærin sem felast í að bæta skipulag vinnunnar. Þá skiptir aukin samvinna miklu ef vel á að takast til.
Nýtt skipulag vinnutíma
Að loknu samtali allra á vinnustaðnum tekur vinnutímanefnd á viðkomandi vinnustað saman umræðuna og gerir tillögu að nýju fyrirkomulagi vinnutíma. Tillöguna, eða eftir atvikum tillögur, skal kynna öllum á vinnustaðnum og að loknu því samtali er tillagan borin undir atkvæði starfsfólks. Breytingin tekur gildi á þeim tíma sem starfsfólk hefur komið sér saman um, en ekki síðar en 1. janúar 2021.