Siðanefnd

Frá því að siðareglur IÞÍ voru fyrst samþykktar árið 2001 hefur siðanefnd verið starfandi hjá félaginu. Siðareglurnar voru endurskoðaðar 2011. Fyrstu siðanefndina skipuðu: Auður Axelsdóttir, Guðrún Einarsdóttir og Margrét Sigurðardóttir. Nefndin sá um útgáfu siðareglna á veggspjaldi og setti sér starfsreglur sem fyrst voru samþykktar á aðalfundi Iðjuþjálfafélags Íslands 2003. Starfsreglurnar hafa síðan verið endurskoðaðar fyrst árið 2011 og svo á árinu 2012.

Starfsreglur siðanefndar IÞÍ

Siðanefnd hefur sett sér eftirfarandi starfsreglur, sem eiga að vera í stöðugri endurskoðun.

1. grein
Stjórn Iðjuþjálfafélags Íslands skipar siðanefnd, sem tilkynnt skal á aðalfundi félagsins. Í siðanefnd sitja þrír aðalfulltrúar og þrír til vara. Leitast skal við að þeir séu af mismunandi starfsvettvangi. Fulltrúar í siðanefnd velja sér formann og skipta með sér verkum að öðru leyti. Endurtilnefning fulltrúa er heimil í þrjú tímabil samfellt. 

Siðanefnd starfar sjálfstætt, óháð stjórn félagsins og öðrum nefndum þess. Fulltrúar í siðanefnd skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Hlutverk nefndarinnar er að vera félagsfólki til ráðgjafar og leiðbeiningar um siðamál. Einnig taka við og fjalla um ábendingar sem berast um meint brot félagsfólks með hliðsjón af lögum og siðareglum félagsins. Siðareglum er eingöngu breytt á aðalfundi.

Til að iðjuþjálfi teljist hæfur til setu í siðanefnd þarf hann að hafa óflekkað mannorð og hafa starfað sem iðjuþjálfi í að minnsta kosti þrjú ár. Í siðanefnd skal skipað til tveggja ára í senn.  Annað hvert ár skal sá fulltrúi sem lengst hefur setið ganga úr siðanefnd. Sömu reglur gilda um setu varafulltrúa í nefndinni. 

2. grein
Hlutverk siðanefndar IÞÍ er að fjalla um mál sem til hennar er vísað og skila áliti eftir því sem við á. Þetta geta verið erindi sem henni berast um meint brot á siðareglum Iðjuþjálfafélags Íslands eins og þær eru hverju sinni. Einnig getur siðanefnd látið sig varða mál, sem fjalla um hagsmuni skjólstæðinga iðjuþjálfa og lífsgæði þeirra, svo sem lagasetningar, heilbrigðismál og annað sem við kemur þjónustu iðjuþjálfa við skjólstæðinga sína.

3. grein
Siðanefnd skal halda fundi eigi sjaldnar en tvisvar á ári . Varamenn skulu boðaðir á fund einu sinni á ári . Siðanefnd er skylt að halda gjörðabók þar sem skráðar eru fundargerðir og afgreiðsla mála. Í gjörðabók skal skrá atriði eins og hvenær erindið barst nefndinni, helstu rök málsaðila, niðurstöðu nefndarinnar og forsendur þeirra. Gjörðabók skal varðveitt af formanni siðanefndar.

4. grein
Siðanefnd gætir þagnarskyldu um persónulegar upplýsingar í erindum sem henni berast.

5. grein
Siðanefnd kannar hvort nefndarmaður í siðanefnd sé vanhæfur vegna vináttu-, fjölskyldu- eða annarra tengsla við málsaðila eða vegna eigin hagsmuna. Ef svo er skal hann víkja úr nefndinni í viðkomandi máli. Varamaður skal þá taka sæti hans í nefndinni. Séu allir varamenn vanhæfir skal leita eftir tilnefningu stjórnar IÞÍ.

6. grein
Erindi til siðanefndar skulu berast beint til formanns siðanefndar og vera skrifleg. Erindi skal berast til siðanefndar innan 6 mánaða frá því að viðkomandi atburður hefur átt sér stað. Siðanefnd getur veitt undanþágu frá þessum tímamörkum ef sérstakar ástæður liggja að baki.

7. grein
Við upphaf málsmeðferðar kannar siðanefnd hvort þeim kröfum sem siðareglur gera til málshefjanda hafi verið fullnægt (sbr. gr. 3.5 í siðareglum iðjuþjálfa). Sé svo ekki skal máli vísað frá og málshefjanda skýrt skriflega frá orsökum frávísunar. Siðanefnd getur einnig vísað erindi frá telji hún það ekki falla undir sitt verksvið af öðrum ástæðum. Málsaðilum skal tilkynnt um slíka ákvörðun og hún rökstudd. Siðanefnd tekur ekki til umfjöllunar mál sem eru fyrir dómstólum og skal málum vísað frá siðanefnd séu þau kærð til dómstóla.

8. grein
Formaður kallar nefndina saman og stjórnar fundum. Þegar erindi er tekið til meðferðar skal málsaðilum, málshefjanda og iðjuþjálfa sem kvartað er undan, veittar skriflegar upplýsingar um eðli og umfang erindis. Siðanefnd skal bjóða málsaðilum að skýra sjónarmið sín á fundum nefndarinnar. Hún getur einnig óskað eftir skriflegri greinagerð frá málsaðilum. Siðanefnd ákveður hvort viðbótargagna skuli aflað og hvort kalla þurfi fleiri aðila fyrir nefndina. Ef þörf krefur er siðanefnd heimilt að leita sér utanaðkomandi aðstoðar, t.d. aðstoðar siðfræðings og/eða lögfræðings, eftir eðli máls hverju sinni.

9. grein
Sá sem kvartað er undan getur óskað eftir að fá afrit af erindinu með fylgiskjölum nema því aðeins að siðanefnd meti það svo að hagsmunir þriðja aðila standi í vegi.

10. grein
Heimilt er að draga málið/erindið til baka hvenær sem er áður en siðanefnd hefur kveðið upp úrskurð sinn.

11. grein
Þegar siðanefnd telur mál nægilega upplýst skal hún kveða upp úrskurð. Úrskurð skal kveða upp eins fljótt og auðið er, þó eigi síðar en sex mánuðum eftir að erindi berst siðanefnd nema sérstakar ástæður liggi að baki. Úrskurður skal vera skriflegur, studdur rökum og fari eftir vilja meirihluta nefndarinnar. Minnihluta nefndarinnar er heimilt að birta sérálit. Úrskurður siðanefndar getur falið í sér eftirfarandi:

  1. Frávísun máls.
  2. Að ekki hafi verið brotið gegn siðareglum iðjuþjálfa.
  3. Að brotið hafi verið gegn siðareglum iðjuþjálfa. Ef siðanefnd úrskurðar að brotið hafi verið gegn siðareglum iðjuþjálfa skal hún veita áminningu. Áminningar geta ýmist verið munnlegar eða skriflegar allt eftir alvarleika brotsins. Ef um alvarlegt brot er að ræða getur siðanefnd vísað málinu til landlæknis.

12.grein
Siðanefnd tilkynnir málsaðilum og stjórn Iðjuþjálfafélags Íslands um úrskurði og áminningar innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu. Siðanefnd er einnig heimilt að birta úrskurð sinn opinberlega en fyllstu nafnleyndar skal gætt.

13. grein
Starfsreglur þessar voru endurskoðaðar í siðanefnd 2011 og 2012.

Um siðareglur

Í starfsstétt sem hefur skráðar siðareglur er mikilvægt að allir hljóti nokkra þjálfun í siðferðilegri umhugsun og rökræðu auk almennrar fræðslu um siðareglur og hlutverk þeirra. Umræðufundir á vinnustöðum eða meðal afmarkaðra hópa í félaginu geta verið gagnlegir og lagt grunn að því hvernig fólk bregst við og greiðir úr siðferðilegum álitamálum starfsins. Siðareglur eru góður vegvísir í okkar starfi og því mikilvægt að hafa lifandi umræðu um þær meðal okkar. Hér er að finna pistla siðanefndar IÞÍ sem birst hafa í Iðjuþjálfanum - fagblaði iðjuþjálfa og fjalla um einstaka greinar siðareglnanna.

 Siðaregla nr. 1.1

Siðaregla nr. 3.1 

Siðaregla nr. 1.3

 Siðaregla nr. 4.2

 Siðaregla nr. 1.4

 

Til baka Senda grein