Lög og reglugerðir

Af vef heilbrigðisráðuneytisins (sótt 11. nóvember 2020)

Markmið laga um heilbrigðisstarfsmenn er að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur um menntun, kunnáttu og færni heilbrigðisstarfsmanna og starfshætti þeirra. Um réttindi og skyldur heilbrigðisstarfsmanna og annarra starfsmanna í heilbrigðisþjónustu gilda lög um réttindi sjúklinga, lög um landlækni og lýðheilsu, lög um sjúkraskrár og önnur lög eftir því sem við á.

Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að fella undir lögin heilbrigðisstéttir sem ekki eru taldar upp í lögunum. Fagfélag viðkomandi starfsstéttar skal sækja um löggildingu til ráðherra og er honum skylt að leita umsagnar landlæknis um umsóknina. Við ákvörðun um það hvort fella eigi starfsstétt undir lögin skal einkum líta til þess hvort löggilding sé nauðsynleg með tilliti til öryggis og hagsmuna sjúklings, þarfar sjúklings fyrir þjónustu starfsstéttar, innihalds og markmiðs menntunar og hvort hún byggist á traustum fræðilegum grunni.

Landlæknir veitir umsækjendum leyfi til að nota starfsheiti löggiltrar heilbrigðisstéttar og til að starfa sem heilbrigðisstarfsmenn hér á landi að uppfylltum skilyrðum laga og reglugerða settra samkvæmt þeim og samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem Ísland er aðili að.

Reglugerð um menntun, réttindi og skyldur iðjuþjálfa og skilyrði til að hljóta starfsleyfi 

Til baka Senda grein