Hvernig á að bera sig að við uppsagnir?

Mikilvægt er að hafa samband við félagið þegar félagsmenn fá uppsagnarbréf til að kanna rétt sinn.

Iðjuþjálfafélag Íslands býður félagsmönnum upp á aðstoð þegar félagsmenn standa frammi fyrir atvinnumissi. Standi félagsmaður frammi fyrir því að missa vinnuna þá hvetur félagið félagsmenn sína til að hafa samband við félagið og óska eftir viðtali til að afla upplýsinga um stöðu sína og hvaða rétt viðkomandi hefur og hvernig eigi að bera sig að í framhaldinu.  http://www.bhm.is/rettindi/uppsagnir/

Hér verður reynt að kortleggja æskilegt ferli uppsagna:

Á uppsögn að vera skrifleg?
Uppsögn á alltaf að vera skrifleg hvort sem það er atvinnurekandi eða launþegi sem sendir uppsagnarbréf. Uppsagnir eiga að vera á sama tungumáli og ráðningarsamningur launþega.

Á launþegi rétt á að vita ástæðu uppsagnar?
Sé launþega á almennum vinnumarkaði sagt upp starfi þá á hann rétt á viðtali um starfslok sín og ástæður uppsagnarinnar. Ósk um slíkt verður sannarlega að berast 4 sólarhringum eftir að uppsögn er móttekin og skal viðtal eiga sér stað innan 4 sólarhringa þar frá. Óski launþegi eftir skriflegum ástæðum uppsagnarinnar skal óskin sannarlega berast atvinnurekanda innan 4 sólarhringa að loknu viðtali og fallist atvinnurekandi á þá ósk launþega skal atvinnurekandi verða við því innan 4 sólarhringa þar frá. Fallist atvinnurekandi ekki á ósk launþega um skriflegar skýringar, á launþegi rétt á öðrum fundi innan fjögurra sólarhringa um ástæður uppsagnarinnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa stéttarfélags síns ef launþegi óskar þess. Sé launþegi opinber starfsmaður á hann skilyrðislaust rétt á skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni.

Hvað á að koma fram í uppsagnarbréfi?
Í uppsagnarbréfi þarf að vera dagsetning uppsagnar, hvenær uppsögn tekur gildi. Óski launþegi eftir því að hætta á ákveðnum tíma skal þess getið. Óski atvinnurekandi ekki eftir vinnuframlagi launþega skal þess einnig getið í bréfinu. Oft koma fram ýmis skilyrði fram í uppsagnarbréfum og því er mikilvægt að kynna sér nákvæmlega hvað slík skilyrði þýða og svara þeim innan þeirra tímamarka sem hugsanlega er kvöð um í slíku uppsagnarbréfi. Aðilar eiga að kvitta fyrir móttöku uppsagnarinnar.

Hvenær tekur uppsögn gildi?
Uppsögn tekur venjulega gildi 1. næsta mánaðar eftir að skrifleg tilkynning um uppsögn berst atvinnurekanda eða launþega og telur uppsagnarfrestur frá þeim degi.

Hver er uppsagnarfresturinn?
Uppsagnarfrestur fer eftir því hvað samið hefur verið um í ráðningarsamningi. Oft er uppsagnarfrestur ein vika eða einn mánuður þegar uppsögn á sér stað á reynslutíma, en hafi launþegi starfað lengur hjá atvinnurekanda en þrjá mánuði er oftast um þriggja mánaða uppsagnarfrest að ræða. Uppsagnarfrestur getur verið lengri og þá skiptir máli hvað um er samið í ráðningarsamningi. Ef um opinberan starfsmann er að ræða þá getur sá möguleiki verið fyrir hendi að uppsagnarfrestur sé 6 mánuðir ef margir launþegar segja upp á sama tíma.

Eru takmarkanir á uppsagnarheimildum?
Ef þú ert trúnaðarmaður, öryggistrúnaðarmaður, barnshafandi, foreldri í fæðingarorlofi eða foreldraorlofi þá er rétt að athuga hvort uppsögnin brjóti í bága við lög, þ.e. uppsagnarvernd.

Hvenær getur launþegi hætt störfum?
Launþega er skylt að vinna uppsagnarfrest geri atvinnurekandi kröfu um það, eins getur atvinnurekaandi krafist þess að starfsmaður hætti um leið og uppsögn berst. Ef launþegi óskar eftir því að annað fyrirkomulag verði viðhaft og vill komast hjá því að vinna uppsagnarfrest þá slíkt samningsatriði milli launþega og atvinnurekanda. Mikilvægt er að aðilar gangi skriflega frá öllum samningsatriðum ef uppsagnarfrestur er ekki unninn af launþega.

Hvenær skráir launþegi sig á atvinnuleysisbætur?
Launþegi ætti ætíð að skrá sig atvinnulausan eigi síðar en daginn eftir að hann hættir að hafa sannanlega tekjur frá atvinnurekanda. Bíði launþegi með það að skrá sig atvinnulausan eftir að hann hættir að hafa tekjur þá skerðast atvinnuleysisbætur með hverjum þeim degi sem viðkomandi launþegi dregur að skrá sig atvinnulausan, þar sem ávinnslutímabil atvinnuleysisbóta er 12 mánuðir.

Hvað ef atvinnurekandi er gjaldþrota?
Launþegi þarf að tryggja það að stéttarfélag fái vitneskju um slíkt. Mikilvægt er að koma afriti af launaseðlum til stéttarfélags, ásamt ráðningarsamningi og uppsagnarbréfi ef um slíkt er að ræða. Félagið sér þá til þess að kröfum sé lýst í þrotabúið og hefur einnig milligöngu um að koma upplýsingum áleiðis til lífeyrissjóða, styrktar- og sjúkrasjóða, orlofs- og vísindasjóðs og veitir ráðgjöf til launþega hvernig eigi að bera sig að. Geti atvinnurekandi ekki staðið skil á launum og launatengdum gjöldum þá greiðir ábyrgðasjóður launa að ákveðnu hámarki laun launþega, en forsenda þess er að kröfum sé lýst í þrotabúið.

Hvernig hef ég atvinnuleit?

Mikilvægt er að setja saman ferilskrá og skrá sig á ráðningarskrifstofur og fara í viðtal til ráðgjafa á þeim stofum. Einnig þarf að fylgjast með auglýsingum í blöðum og vefsíðum, en félagið býður atvinnurekendum að auglýsa eftir starfsfólki á heimasíðu sinni.

Til baka Senda grein