Nám í iðjuþjálfun

Til að sinna störfum sínum þurfa iðjuþjálfar að búa yfir góðri þekkingu á uppbyggingu og starfsemi mannslíkamans, sálarfræði, félagsfræði og þroskaferli mannsins. Enn fremur er þekking á eðli sjúkdóma og öðru því er getur ógnað heilsu fólks nauðsynleg. Sérþekking iðjuþjálfa grundvallast á vísindum um iðju mannsins og þeirri hugmynda- og aðferðafræði sem starf iðjuþjálfa byggist á. 

Starfsvettvangur er aðallega á sviði heilbrigðis, félags- og menntamála og iðjuþjálfar vinna ýmist innan eða utan stofnana samfélagsins. Innan stofnana má finna sérútbúnar iðjuþjálfunardeildir þar sem aðstaða er til að veita þjálfun og leiðbeina fólki við ýmis verk er tengjast daglegu lífi. Starfið utan stofnana getur farið fram á heimili skjólstæðings, vinnustað, skóla eða þar sem hann stundar tómstundaiðju sína. 

Þá geta iðjuþjálfar einnig starfað hjá hinu opinbera við skipulagningu heilbrigðis- og félagsþjónustu eða við hönnun umhverfis. Stundum starfa þeir hjá fyrirtækjum eða sem sjálfstæðir ráðgjafar, til dæmis við heilsueflingu og forvarnarstarf.
Iðjuþjálfun er kennd við Háskólann á Akureyri, www.unak.is  

Lokaverkefni á háskólastigi
Á vefnum www.skemman.is er hægt að finna lokaverkefni nemenda í íslenskum háskólum auk ritrýndra greina sem tengjast ýmsum verkefnum og ráðstefnum á þeirra vegum. 

Til baka Senda grein