Saga iðjuþjálfunar

Iðjuþjálfun haslaði sér völl við lok 19. aldar í Kanada og Bandaríkjunum. Þá var um að ræða starfsemi þar sem skapandi athafnir voru notaðar til að takast á við afleiðingar veikinda og fötlunar. Iðjuþjálfun hefur þróast og breyst í gegnum tíðina og víðast hvar í hinum vestræna heimi náð því takmarki að vera skilgreind sem fræðigrein með áherslu á vísindalega þekkingu og gagnreynt starf. Iðjuþjálfun hefur stóru hlutverki að gegna í að efla heilsu og stuðla að jafnrétti og tækifærum til iðju fyrir alla þegna samfélagsins. Færni og þátttaka fólks við iðju eru meginviðfangsefni iðjuþjálfunar.  Samspil iðju, manneskju og umhverfis er ávallt í brennidepli og sú sýn að engin tvö eru eins. 

Hér er stiklað á stóru og helstu áfangar í sögu iðjuþjálfunar á Íslandi nefndir.

1936
Iðjuþjálfunar var sennilega fyrst getið þegar dr. Helgi Tómasson geðlæknir hélt erindi fyrir Læknafélag Reykjavíkur um vinnulækningar og skrifaði grein um sama efni.

1945
Jóna Kristófersdóttir, fyrsti íslenski iðjuþjálfinn, útskrifaðist frá iðjuþjálfaskólanum í Kaupmannahöfn 1944. Hún hóf störf við Kleppsspítala ári síðar þar sem heilt hús var byggt var fyrir starfsemi iðjuþjálfunar og þar starfaði Jóna alla tíð. Hún var eini iðjuþjálfinn hér á landi um tveggja áratuga skeið

1963
Kristín Tómasdóttir útskrifaðist einnig frá iðjuþjálfaskólanum í Kaupmannahöfn og vann hún fyrst á Kleppsspítala og flutti svo til Akureyrar árið 1965 og starfaði um hríð á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Starf hennar þá var nefnt sjúkrakennsla eða vinnulækningar.

1970
Nokkrir erlendir iðjuþjálfar komu hér til starfa upp úr 1970. Þeir dvöldu yfirleitt ekki lengi en áttu þó sinn þátt í að móta starf iðjuþjálfa hér.

1974
Frá Bandaríkjunum kom Hope Knútsson, en hún var ein þeirra fáu erlendu iðjuþjálfa sem völdu sér starfsvettvang á Íslandi til frambúðar. Hope var formaður Iðjuþjálfafélags Íslands í 22 ár samfleytt til 1999 og lagði ómælda vinnu af mörkum við að efla iðjuþjálfun á Íslandi og stuðla að aðþjóðlegum samskiptum. Næstu árin tóku íslenskir iðjuþjálfar að tínast heim til starfa að loknu námi.

1976
Þann 4. mars var Iðjuþjálfafélag Íslands formlega stofnað og heitið iðjuþjálfun fest í sessi. Stofnfélagar voru 10 talsins. Hope Knútsson, Guðrún Pálmadóttir, Anne Grethe Hansen og Ingibjörg Ásgeirsdóttir skipuðu fyrstu stjórnina. Auk þeirra voru stofnfélagar: Sigríður Loftsdóttir, Jóna Kristófersdóttir, Kristín Tómasdóttir, Emelita O. Nocon, Hildegard Demleiter og Margrét Demleiter.

1977
Þann 31. desember tóku fyrstu lögin um iðjuþjálfun gildi á Alþingi.

1979
Iðjuþjálfafélag Íslands hóf útgáfu fréttablaðs, hét það fyrst fréttablaðið, síðan Blað-IÐ, 1993 var nafinu breytt í Iðjuþjálfinn.

1985
Alls voru 34 iðjuþjálfar starfandi hér á landi.

1986
Iðjuþjálfafélag Íslands fékk fulla aðild að Heimssambandi iðjuþjálfa WFOT.

1995
Alls voru 63 iðjuþjálfar starfandi á Íslandi. Sjö iðjuþjálfar hófu meistaranám í samstarfi milli Háskóla Íslands og Florida International University. Náminu var komið á fót fyrir tilstilli professors Gail Anne Hills sem fékk Fullbright styrk til þess að koma hingað og kenna fyrstu námskeiðin í HÍ.

1996
Fyrsta íðorðasafnið í iðjuþjálfun var gefið út: Íðorð í iðjuþjálfun.

1997
Stofnuð námsbraut í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri. Námið tekur fjögur ár og lýkur með BS-gráðu.

1998
Sjö íslenskir iðjuþjálfar útskrifuðust með meistaragráðu í iðjuþjálfun frá Florida International University.

2001
Siðareglur Iðjuþjálfafélags Íslands voru samþykktar á aðalfundi 10. mars. Fyrstu íslensku iðjuþjálfarnir brautskráðust frá Háskólanum á Akureyri. Fyrsta alþjóðlega ráðstefnan –Iðja, heilsa og vellíðan- haldin á Akureyri.

2006
Snæfríður Þóra Egilson varð fyrst íslenskra iðjuþjálfa til að ljúka doktorsprófi. Doktorsritgerð hennar: School participation: Icelandic students with physical impairments (Þátttaka nemenda með hreyfihömlun í skólastarfi). Fjörutíu og fjórir starfandi iðjuþjálfar luku sérskipulögðu námi til BS-gráðu í iðjuþjálfun. Sextíu og sjö iðjuþjálfar hafa útskrifast frá Háskólanum á Akureyri.

2017
Námi í iðjuþjálfunarfræðum við Háskólann á Akureyri er breytt. Nemendur útskrifast eftir þrjú ár með B.sc gráðu Í iðjuþjálfunarfræðum. Þeir sem hafa áhuga á að starfa sem iðjuþjálfar geta svo bætt við sig ári af diplómanámi (60 ECTS einingar) á meistarastigi. Í diplómanáminu fer stór hluti námsins fer fram á vettvangi þar sem nemendur takast á við raunveruleg verkefni og undirbúa sig markvisst fyrir störf iðjuþjálfa.

Til baka Senda grein