Um iðjuþjálfun
Iðjuþjálfun er vaxandi faggrein um allan heim og viðfangsefni iðjuþjálfa eru afar fjölbreytileg. Leiðarljósið er að standa vörð um og efla iðju, þátttöku, heilbrigði og velferð einstaklinga, hópa og samfélaga. Iðjuþjálfar starfa með fólki á öllum aldri sem af einhverjum ástæðum glímir við iðjuvanda sem hamlar þeim í hversdeginum og hindrar þátttöku. Iðjuþjálfar eru ein af lykilstéttunum innan forvarna, vinnuverndar og endurhæfingar. Þjónusta þeirra og vinnuaðferðir byggja á gagnreyndri þekkingu og viðurkenndu verklagi. Starfsvettvangurinn er breiður og má nefna heilbrigðis- og félagsþjónustu, skóla, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir, stjórnsýslu og fyrirtæki á almennum vinnumarkaði.
Frá því 1997 hefur verið boðið upp á nám í iðjuþjálfun hér á landi. Námið fer fram við Heilbrigðis, - viðskipta- og raunvísindasvið Háskólans á Akureyri. Námið skiptist í þriggja ára grunnnám sem lýkur með BSc gráðu í iðjuþjálfunarfræði. Til þess að verða iðjuþjálfi þarf síðan viðbótardiplóma í iðjuþjálfun á meistarastigi, svokallað starfsréttindanám. Sú gráða tryggir leyfisveitingu frá Embætti landlæknis til að starfa sem iðjuþjálfi á Íslandi. Námið tekur í heild fjögur ár (3+1) og telur 240 ECTS einingar. Áður fyrr fengu íslenskir iðjuþjálfar menntun sína erlendis, flestir á hinum Norðurlöndunum. Námið við HA er alþjóðlega viðurkennt sem gefur ýmsa möguleika á framhaldsmenntun og störfum í öðrum löndum.
Hugmyndafræði iðjuþjálfunarfagsins byggir á þeirri sýn að iðja sé öllu fólki nauðsynleg og frá örófi alda hafi líf manneskjunnar einkennst af þörf til að stunda iðju og taka þátt í samfélaginu. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk kemst í þær aðstæður að geta ekki sinnt þeirri iðju sem er því mikilvæg, þá hefur það neikvæð áhrif á heilbrigði og líðan.
Í iðjuþjálfun felst sérþekking á iðju í samhengi við heilbrigði og velferð. Hér er átt við allt það sem fólk innir af hendi í hversdeginum í þeim tilgangi að annast sig og sína, vinna ýmis störf sem koma að gagni í samfélaginu og njóta þess sem lífið hefur að bjóða. Sem dæmi um iðju má nefna það að klæða sig og snyrta, útbúa mat, aka bíl, afgreiða í verslun, skrifa ritgerð, fara á skíði eða mála mynd. Þótt þessi viðfangsefni virðist sjálfsögð og einföld fyrir flest, þá geta þau verið erfið og jafnvel óyfirstíganleg fyrir þau sem búa við skerðingar á færni eða hindranir og tækifærisleysi í umhverfi sínu.
Ástæður iðjuvanda eru margvíslegar og ávallt er horft til samspils iðju, einstaklings og umhverfis. Hægt er að nefna ódæmigerðan þroska, sjúkdóma, andlegar áskoranir og áföll, fötlun eða hrumleika vegna öldrunar. Iðjuvandi skapast þegar færni er skert eða ef umhverfið takmarkar möguleika fólks til iðju og þátttöku. Oft er fyrsta skrefið til að styðja og efla færni fólks og þátttöku, einfaldlega að breyta aðstæðum. Sem dæmi má nefna að bæta aðgengi hjólastólanotenda með því að koma upp römpum við verslanir eða tryggja að hreyfihamlaður nemandi hafi aðgang að lyftu í skólanum sínum til að komast milli hæða.
Þegar erfiðleikar koma upp sem hafa áhrif á daglega iðju fólks, kemur þekking iðjuþjálfa að góðum notum. Markmiðið er að viðkomandi auki færni sína, sjálfstæði og þátttöku. Í samstarfi við skjólstæðinginn er gert nákvæmt mat á getu og áhuga, iðju hans og aðstæðum. Þjálfun getur falist í því að vinna með eiginleika sem eru nauðsynlegir til að inna ákveðin verk af hendi. Þetta getur verið hreyfing, skynjun, hugarstarf eða tilfinningalíf og félagsleg samskipti. Að sama skapi er kannað hvort velferðartækni og hjálpartæki eða breytingar á húsnæði þurfi til að auka færni og þátttöku viðkomandi. Stundum þarf að endurskipuleggja húsnæði þannig að skjólstæðingur komist um með göngugrind eða að kenna foreldrum að nýta sér hjálpartæki til að annast hreyfihamlað barn svo dæmi séu tekin.
Algengt er að iðjuþjálfar starfi með hópum og veiti fræðslu og ráðgjöf sem snýr að breyttum lífsháttum, svo sem til að sporna við vinnuálagi, breyta vinnuaðstöðu og hafa stjórn á streitu í daglegu lífi. Þá er horft til þeirra grunnþátta sem skipta öllu máli fyrir heilsu og lífsgæði: Svefns, næringar, hreyfingar og félagslegra tengsla auk þess að gera fólki kleift að geta stundað þá iðju sem þeim er mikilvæg. Langvarandi iðjuvandi hefur veruleg áhrif á lífshlaup einstaklinga þar sem hann dregur úr heilbrigði og lífsgæðum fólks auk þess að bitna á tækifærum til þátttöku í samfélaginu.
Uppfært 2024: Þóra Leósdóttir