Um iðjuþjálfun

Iðjuþjálfun er vaxandi starfsgrein um allan heim og viðfangsefni iðjuþjálfa eru fjölbreytileg. Frá því haustið 1997 hefur verið boðið upp á nám á iðjuþjálfunarbraut við Háskólann á Akureyri og er það fjögurra ára nám sem lýkur með BS gráðu. Fram að þeim tíma fengu íslenskir iðjuþjálfar menntun sína erlendis. 

Iðja mannsins að leiðarljósi: Iðja er öllum nauðsynleg og frá örófi alda hefur líf mannsins einkennst af þörf hans til að stunda iðju af margvíslegu tagi. Rannsóknir hafa sýnt að ef fólk kemst í þær aðstæður að geta ekki sinnt þeirri iðju sem því er mikilvæg, þá hefur það neikvæð áhrif á heilsu þess og líðan.

Í iðjuþjálfun felst sérþekking á daglegri iðju mannsins. Þá er átt við allt það sem fólk innir af hendi í daglegu lífi í þeim tilgangi að annast sig og sína, vinna ýmis störf er nýtast samfélaginu og njóta þess sem lífið hefur að bjóða. Sem dæmi um iðju má nefna það að klæða sig og snyrta, útbúa mat, aka bíl, afgreiða í verslun, skrifa ritgerð, fara á skíði eða mála mynd. Þótt þessi viðfangsefni virðist sjálfsögð og einföld fyrir flesta, þá geta þau verið erfið og jafnvel óyfirstíganleg fyrir fólk sem er með ódæmigerðan þroska, hefur fengið sjúkdóma, er komið á efri ár eða hefur upplifað áföll af einhverju tagi svo eitthvað sé nefnt. 

Þegar erfiðleikar koma upp sem hafa áhrif á daglega iðju fólks, kemur sérþekking iðjuþjálfa að gagni og stuðlar að aukinni færni þannig að viðkomandi eykur sjáflstæði sitt, þátttöku og lífsfyllingu. Til þess að efla færni fólks nýta iðjuþjálfar fræðslu, ráðgjöf og þjálfun. Í upphafi þarf að gera nákvæmt mat á getu og áhuga skjólstæðingsins, iðju hans og aðstæðum. Ávallt er rýnt í samspil manneskjunnar, iðjunnar og umhverfisins. Þjálfun getur falist í því efla hjá viðkomandi þá eiginleika sem eru nauðsynlegir til að inna ákveðin verk af hendi. Þetta geta verið eiginleikar eins og hreyfing, skynjun, hugarstarf eða tilfinningalíf og félagsleg samskipti.

Oft starfa iðjuþjálfar með hópum og veita þá fræðslu og ráðgjöf sem snýr að breyttum lífsháttum, svo sem til að sporna við vinnuálagi, breyta vinnuaðstöðu og hafa stjórn á streitu í daglegu lífi. Dæmi um ráðgjöf er einnig hvernig endurskipuleggja má húsnæði þannig að skjólstæðingur komist um í hjólastól eða að kenna aðstandendum að nýta sér hjálpartæki til að annast hreyfihamlað barn.

Til baka Senda grein