Ritnefnd

Tímaritið Iðjuþjálfinn er fagblað félagsfólks í Iðjuþjálfafélagi Íslands og er gefið út einu sinni á ári. Markmiðið með útgáfu er að birta efni sem hefur faglegt gildi, upplýsingagildi og eykur þekkingu almennings á iðjuþjálfun. Helstu markhópar blaðsins eru iðjuþjálfar, iðjuþjálfanemar, annað fagfólk og almenningur. Iðjuþjálfafélag Íslands og starfandi ritnefnd hverju sinni leggur metnað sinn í að allt félagsfólk finni þar efni sér til gagns, fróðleiks og ánægju. 

Ritnefnd er samkvæmt lögum ÍÞÍ ein af föstum nefndum félagsins. Kosið er í ritnefnd á aðalfundi og eru fulltrúar kosnir til tveggja ára í senn. Í nefndinni sitja fimm fulltrúar sem skipta með sér störfum, þar af er einn þeirra ritstjóri og er hann jafnframt tengiliður nefndarinnar við stjórn IÞÍ og Þjónustuskrifstofu SIGL.

Fagblaðið er vettvangur fræðilegrar og faglegrar umfjöllunar um iðjuþjálfun. Í blaðinu eru birtar margvíslegar greinar sem fjalla um ýmis svið innan iðjuþjálfunar. 

Fræðigreinar eru rannsóknagreinar, yfirlitsgreinar og kenningagreinar, þ.e. greinar sem á ítarlegan hátt fjalla um þróun þekkingar í iðjuþjálfun hvort heldur sem er iðjuþjálfastarfið, rannsóknir innan iðjuþjálfunar, kennslu í iðjuþjálfun eða stefnumótun í iðjuþjálfun og heilbrigðisþjónustu. Lögð er áhersla á beitingu margvíslegra rannsóknaraðferða, fjölbreytileika í fræðilegri nálgun viðfangsefna og vönduð vinnubrögð. Fræðigreinar eru ritrýndar og stýrir Fræðileg ritstjórn IÞÍ því ferli.

Aðrar greinar fjalla um margvísleg viðfangsefni innan iðjuþjálfunar og byggjast að einhverju leyti á fræðilegum heimildum ásamt athugunum eða reynslu höfunda. Þar skiptir miklu frumleiki í umfjöllun og efnistökum, menningarlegur margbreytileiki í iðjuþjálfun og þróun iðjuþjálfunar. 

Í blaðinu er einnig að finna viðtöl við fólk um iðjuþjálfun frá ýmsum sjónarhornum og aðrar faglegar upplýsingar sem eiga erindi til félagsfólks IÞÍ og annara.

Handrit fyrir greinar skal senda á tölvutæku formi (Word) til ritnefndar blaðsins á netfangið ritnefnd@ii.is 

Starfandi ritnefnd: Sjá stjórn og nefndir

Til baka Senda grein