Lög Iðjuþjálfafélag íslands

Samþykkt á aðalfundi 12. mars 2021

I. Kafli: Heiti og hlutverk

1. grein – Heiti félagsins
Félagið heitir Iðjuþjálfafélag Íslands, skammstafað IÞÍ. Félagið er fag- og stéttarfélag iðjuþjálfa og félagssvæði þess er allt landið. Lögheimili og varnarþing er í Reykjavík.

2. grein – Hlutverk félagsins
Félagið hefur það hlutverk að standa vörð um og efla:

  • Iðjuþjálfunarfagið, gæði þess og þróun
  • Faglega hagsmuni, samvinnu og samheldni félagsfólks
  • Réttindi, kjör og starfsaðstæður félagsfólks
  • Iðju, þátttöku, heilsu og velferð einstaklinga, hópa og samfélaga
  • Þátt iðjuþjálfa í þróun og stefnumótun velferðarmála
  • Samstarf og tengsl við nema í iðjuþjálfunarfaginu
  • Samstarf og tengsl við önnur fag- og stéttarfélög hér á landi og félög iðjuþjálfa í öðrum löndum

Félagið kennir sig ekki hvorki við stjórnmálaflokka né trú- og lífskoðunarfélög.

II. KAFLI: AÐILD, FÉLAGSGJÖLD, ÚRSÖGN

3. grein – Aðild
Iðjuþjálfar sem lokið hafa námi frá viðurkenndum háskóla og fengið íslenskt starfsleyfi hafa rétt til aðildar að félaginu. Nemar í iðjuþjálfunarfaginu geta fengið sérstaka aðild. Sækja þarf skriflega um aðild, bæði í upphafi og þegar aðild er breytt. Heiðursfélagi er valinn með samþykki allra í stjórn og félagar geta komið tilnefningum á framfæri við hana. Valið skal tilkynnt á aðalfundi. Aðild að félaginu er þrenns konar.

  • Full aðild. Iðjuþjálfar sem greiða stéttarfélagsgjöld til IÞÍ. Aðildin veitir réttindi til þátttöku í fag- og stéttarfélagsmálum.
  • Fagaðild. Iðjuþjálfar sem greiða fagfélagsgjöld til IÞÍ og starfa ekki eftir kjarasamningum félagsins. Einnig lífeyrisþegar og þeir heiðursfélagar sem ekki greiða stéttarfélagsgjöld. Aðildin veitir réttindi til þátttöku í öllum málum félagsins öðrum en kjaramálum.
  • Nemendaaðild. Nemendur á 2. og 3. ári í iðjuþjálfunarfræði, nemendur í diplómanámi til starfsréttinda sem iðjuþjálfar og þau sem stunda nám í iðjuþjálfunarfaginu erlendis geta fengið nemendaaðild. Aðildin veitir málfrelsi og tillögurétt á félags- og fræðslufundum.

4. grein – Félagsgjöld
Aðalfundur ákvarðar félagsgjöld. Stéttarfélagsgjald er ákveðið hlutfall af heildarlaunum sem innheimt er mánaðarlega. Fagfélagsgjald er föst upphæð og stjórn félagsins ákveður hvernig innheimtu á því skal háttað. Heiðursfélagar með fagaðild, lífeyrisþegar og nemendur greiða ekki félagsgjöld.

5. grein – Úrsögn
Tilkynna skal úrsögn skriflega til félagsins og tekur hún gildi þegar hún berst enda sé félagi skuldlaus við IÞÍ og mál honum viðkomandi ekki til umfjöllunar hjá siðanefnd félagsins.

III. KAFLI: AÐALFUNDUR

6. grein – Aðalfundur félagsins
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins og skal haldinn fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Aðalfundur getur verið rafrænn, staðfundur eða hvort tveggja í senn. Ársskýrslur fastra nefnda og stjórna sem og lagabreytingatillögur skulu hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en 31. janúar ár hvert. Skriflegar athugasemdir við fram komnar lagabreytingatillögur skulu berast í síðasta lagi við setningu aðalfundar. Allt skuldlaust félagsfólk á rétt til setu á aðalfundi. Fundarboði skal dreift til félagsfólks, ásamt skýrslum nefnda og lagabreytinga-tillögum minnst tveimur vikum fyrir fundinn. Aðalfundur er löglegur og ályktunarhæfur sé rétt til hans boðað.

7. grein – Kosningar og atkvæðagreiðsla
Kosningar til trúnaðarstarfa og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar skulu vera leynilegar komi fram um það tillaga studd af þremur félögum. Einfaldur meirihluti ræður í atkvæðagreiðslu.

Formaður félagsins er kosinn til tveggja ára í senn. Við lok kjörtímabils formanns skal kallað eftir framboðum til embættisins eigi síðar en þremur mánuðum fyrir aðalfund og lýkur framboðsfresti þremur vikum fyrir aðalfund. Frambjóðendur fá tvær vikur til að kynna sig. Kosning formanns skal vera rafræn, hefjast viku fyrir aðalfund og standa yfir í þrjá daga. Gefi sitjandi formaður kost á sér áfram og mótframboð berst ekki, telst hann sjálfkjörinn án kosningar.

Kallað er eftir framboðum í stjórn félagsins, nefndir og stjórnir eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund og lýkur framboðsfresti tveimur vikum fyrir aðalfund. Heimilt er að kjósa rafrænt í stjórn og fastar nefndir IÞÍ séu fleiri en einn í framboði miðað við sæti. Hafi ekkert framboð komið fram í eitthvert embætta félagsins, er hægt að bjóða sig fram á aðalfundi.

8. grein - Dagskrá aðalfundar

a. Fundur settur
b. Skipan fundarstjóra og fundarritara
c. Staðfest lögmæti fundarins
d. Skýrsla stjórnar
e. Umræður um skýrslur fastra nefnda
f. Endurskoðaðir reikningar félagsins kynntir og bornir undir fundinn til samþykktar
g. Fjárhagsáætlun stjórnar kynnt og tillaga um félagsgjöld borin upp.
h. Lagabreytingar
i. Kosningar:
        tilkynnt um niðurstöðu formannskjörs (ef við á)
        fulltrúar í stjórn
        fulltrúar í fastar nefndir
        fulltrúar í félagasamtök sem IÞÍ á aðild að
        tveir skoðunarmenn reikninga
j. Skipan tilkynnt:
        stjórn fagþróunarsjóðs (áður fræðslusjóður)
        stjórn siðanefndar
        fræðileg ritstjórn
k. Önnur mál
l. Fundi slitið

9. grein – Aukaaðalfundur
Ef þörf krefur getur stjórn félagsins eða helmingur félagsfólks kallað saman til aukaaðalfundar með útsendingu dagskrár með að minnsta kosti tveggja vikna fyrirvara.

IV. KAFLI: STJÓRN OG HLUTVERK

10. grein – Stjórn félagsins
Stjórn IÞÍ fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda og fylgir eftir lögum þess og samþykktum. Í stjórn eru auk formanns, varaformaður, gjaldkeri, ritari og meðstjórnandi. Varamenn eru tveir. Alla jafna er kosið um tvo aðalmenn í stjórn og einn varamann í hvert sinn. Kjörtímabilið er tvö ár. Stjórnin ber ábyrgð á störfum félagsins og formaður og varaformaður leiða samninganefndir þess. Varaformaður er staðgengill formanns.

Allir stjórnarmenn skulu vera með fulla aðild að félaginu. Breyti stjórnarmenn, aðrir en formaður aðild sinni á kjörtímabilinu er þeim heimilt að sitja í stjórn fram að næsta aðalfundi.

Stjórn skiptir með sér verkum á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund. Stjórnarfundur telst löglegur ef minnst þrír fulltrúar sitja hann, þar af annað hvort formaður eða varaformaður. Einfaldur meirihluti stjórnar ræður úrslitum mála.

11. grein – Fulltrúafundur
Stjórn félagsins skal halda fulltrúafund að hausti eða fyrir lok nóvember ár hvert. Á fundinn skal með tveggja vikna fyrirvara boða 1-2 fulltrúa úr stjórnum, nefndum og faghópum félagsins. Tilgangur fundarins er að miðla upplýsingum um það helsta í starfinu, kynna áætlanir og helstu verkefni.

12. grein – Félagsfundur
Stjórn félagsins eða nefndir og stjórnir innan þess geta boðað félagsfund. Einnig skal halda félagsfund ef 1/3 félagsfólks óskar þess. Á félagsfundi fara fram umræður um málefni eða tillögur varðandi starfsemi félagsins og atkvæðagreiðslur þar að lútandi.

13. grein – Útgáfustarfsemi
Stjórn IÞÍ setur reglur um útgáfumál. Allt efni sem birtist á prenti, rafrænt, á ljósvakamiðlum og á ráðstefnum auk minjagripa telst vera útgáfa félagsins. Stjórn heldur úti vefsíðu og nýtir samfélagsmiðla í nafni félagsins. Félagið gefur út fagblaðið Iðjuþjálfann og ritstjóri þess skal ráðinn af stjórn. Hann markar ásamt ritnefnd stefnu fagblaðsins og annast útgáfu þess. Ritstjóri hefur náið samstarf við fræðilega ritstjórn.

14. grein – Trúnaðarmenn
Stjórn skal beita sér fyrir því að trúnaðarmenn séu kjörnir á vinnustöðum. Heimilt er að kjósa trúnaðarmenn fyrir félagssvæði eða hluta þess ef starfsfólk á vinnustöðum uppfyllir ekki skilyrði um fjölda.

15. grein – Handbók
Stjórn heldur úti handbók um starfsemi félagsins sem er aðgengileg félagsfólki. Handbókin er leiðarvísir fyrir störf stjórnar félagsins, ráða, nefnda, stjórna og faghópa. Handbókin skal uppfærð á tveggja ára fresti.

V. KAFLI: RÁÐ, NEFNDIR, STJÓRNIR OG FAGHÓPAR 

16. grein – Fundir
Ráð, nefndir og stjórnir innan félagsins skulu halda sína fundi eins oft og þörf krefur, þó að lágmarki tvisvar sinnum á ári. Ávallt skal rita fundargerð.

17. grein – Fagráð
Fagráð er þriggja manna og skipað af stjórn. Það er ráðgefandi fyrir stjórn, nefndir og hópa um fagleg málefni svo sem tengsl og samskipti við fræðasamfélög og námsstofnanir sem tengjast iðjuþjálfunarfaginu og rannsóknastarfi því tengdu. Einnig má leita til fagráðs varðandi umsagnir félagsins um frumvörp, þingsályktanir og annað sem tengist stjórnsýslu og stefnumótun. Fagráð getur ennfremur veitt ráðgjöf um efni sem birt er í nafni og á vegum félagsins.

18. grein – Trúnaðarmannaráð
Trúnaðarmannaráð er skipað trúnaðarmönnum og stjórn félagsins. Trúnaðarmannaráð kýs samninganefnd, úr sínum röðum sem ásamt formanni og varaformanni félagsins fer með forsvar við undirbúning og gerð kjarasamninga. Formaður IÞÍ skal alla jafna vera formaður samninganefndar félagsins.

19. grein – Nefndir og stjórnir
Fastar nefndir og stjórnir eru fræðslunefnd, ritnefnd, fræðileg ritstjórn, stjórn fagþróunarsjóðs og siðanefnd. Fulltrúar í fræðslunefnd og ritnefnd skulu kosnir á aðalfundi. Fulltrúar í fræðilega ritstjórn, siðanefnd og stjórn fagþróunarsjóðs eru skipaðir af stjórn félagsins og það tilkynnt á aðalfundi. Fulltrúar eru kjörnir eða skipaðir til tveggja ára nema annað sé tiltekið. Ekki má skipta um þá alla á sama tíma. Allar nefndir og stjórnir eru ábyrgar gagnvart stjórn félagsins.

  • Fræðslunefnd. Í nefndinni eru fimm fulltrúar. Hlutverk fræðslunefndar er að meta þörf fyrir fræðslu og standa að reglulegum málþingum, fræðslufundum og námskeiðum sem snerta fagið, félagsfólk og störf þeirra.
  • Ritnefnd. Í nefndinni eru fjórir fulltrúar auk ritstjóra sem er jafnframt formaður nefndarinnar. Ritnefnd skal útvega efni fyrir fagblaðið Iðjuþjálfann og annast útgáfu hans.
  • Fræðileg ritstjórn. Í fræðilegri ritstjórn eru þrír fulltrúar. Hlutverk hennar er að stýra ritrýningarferli greina sem birtast eiga í fagblaðinu Iðjuþjálfanum auk þess að veita ritnefnd ráðgjöf um framsetningu fræðilegs efnis.
  • Stjórn fagþróunarsjóðs. Í stjórn sjóðsins eru þrír fulltrúar skipaðir til þriggja ára í senn. Stjórn fagþróunarsjóðs velur sér formann. Hlutverk stjórnarinnar er að auglýsa eftir og fjalla um styrkumsóknir og úthluta styrkjum tvisvar á ári.
  • Siðanefnd. Í nefndinni eru þrír aðalfulltrúar og þrír til vara. Endurtilnefning er heimil í þrjú tímabil samfellt. Siðanefnd starfar sjálfstætt, óháð stjórn félagsins og öðrum nefndum þess. Fulltrúar í siðanefnd skulu ekki gegna öðrum trúnaðarstörfum fyrir félagið. Hlutverk nefndarinnar er að vera félagsfólki til ráðgjafar og leiðbeiningar um siðamál. Einnig taka við og fjalla um kvartanir um meint brot félagsfólks með hliðsjón af lögum og siðareglum félagsins. Siðareglum er eingöngu breytt á aðalfundi.

Tímabundnar nefndir eru kjörnefnd og aðrar nefndir sem taka að sér afmörkuð verkefni.

  • Kjörnefnd. Stjórn skipar þrjá fulltrúa í kjörnefnd minnst átta vikum fyrir aðalfund. Nefndin skal sjá til þess að næg framboð berist í tæka tíð fyrir kosningu eða skipan fulltrúa í stjórn félagsins, stjórnir og nefndir. Kjörnefnd skal leitast við að tryggja fjölbreytni meðal frambjóðenda hvað varðar starfsvettvang, aldur, kyn og reynslu.
  • Aðrar nefndir. Nefndir sem eru ákveðnar á félagsfundum eða skipaðar af stjórn. Tilkynna skal félagsfólki skriflega um slíkar nefndir og hlutverk þeirra.

20. grein – Faghópar
Heimilt er í samráði við stjórn félagsins að stofna faghópa sem eru helgaðir sérstökum sviðum iðjuþjálfunar eða störfum iðjuþjálfa. Faghóparnir setja sér starfsreglur sem skulu staðfestar af stjórn félagsins. Í þeim skal kveðið á um að viðkomandi faghópur starfi innan félagsins og að meðlimir hans skulu vera félagar í IÞÍ. Stefna og markmið faghópanna skal vera í samræmi við lög og stefnu félagsins og siðareglur iðjuþjálfa. Stjórn félagsins getur styrkt starf faghópa en þeim er ekki heimilt að skuldbinda IÞÍ fjárhagslega. Þegar starfsreglur hafa verið staðfestar af stjórn skal stofnun faghóps tilkynnt á aðalfundi IÞÍ til samþykktar.

 

VI. KAFLI: SAMSTARF OG TENGSL

21. grein – Þátttaka félagsins í innlendu og erlendu samstarfi

  •  Bandalag háskólamanna. IÞÍ er eitt af aðildarfélögum Bandalags háskólamanna (BHM). Formaður félagsins er fulltrúi í formannaráði bandalagsins. Félagsfólk á aðild að sjóðum BHM eftir því sem við á miðað við starfsvettvang.
  • Heimssamband iðjuþjálfa. IÞÍ er aðildarfélag innan Heimssambands iðjuþjálfa (World Federation of Occupational Therapists (WFOT)). Formaður félagsins er aðalfulltrúi innan WFOT og varaformaður er varafulltrúi.
  • Iðjuþjálfanefnd Evrópuþjóða. IÞÍ á einn fulltrúa í Iðjuþjálfanefnd Evrópuþjóða (Council of Occupational Therapists of the European Countries (COTEC)) og skal það vera formaður félagsins.
  • Norrænt samstarf. IÞÍ á samstarf við önnur iðjuþjálfafélög á Norðurlöndunum. Formaður og varaformaður eru fulltrúar félagsins á þeim vettvangi. Formaður er einnig fulltrúi félagsins í stjórn Scandinavian Journal of Occupational Therapy (SJOT). Stjórn IÞÍ tilnefnir fulltrúa í ritstjórn SJOT.
  • Önnur samtök og starfshópar. Fulltrúar IÞÍ í öðrum samtökum og starfshópum eru ýmist kosnir á aðalfundi eða skipaðir af stjórn. Alla jafna skal ekki kjósa eða skipa slíka fulltrúa til meira en tveggja ára í senn.

VII. KAFLI: FJÁRMÁL OG SJÓÐIR

22. grein – Umsjón fjármála
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn IÞÍ skal birta endurskoðaða reikninga félagsins eigi síðar en 2 vikum fyrir aðalfund ár hvert. Gjaldkeri annast sjóðgæslu félagsins og hefur umsjón með fjármálum þess.

23. grein – Vísindasjóður
Félagið á vísindasjóð og í kjarasamningum er kveðið á um fastan tekjustofn hans. Gjaldkeri félagsins er fulltrúi og umsjónarmaður sjóðsins. Úthlutun er árleg og skal hún fara fram á fyrsta ársfjórðungi. Einungis þeir félagar sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn eiga rétt á úthlutun.

24. grein – Fagþróunarsjóður
Fagþróunarsjóður (áður fræðslusjóður) var stofnaður með samþykkt aðalfundar IÞÍ þann 21. mars 1998. Breytingar á starfsreglum sjóðsins eru háðar samþykki aðalfundar. Úthlutun úr sjóðnum fer fram tvisvar á ári og skuldlaust félagsfólk með fulla aðild eða fagaðild geta sótt um styrk úr fagþróunarsjóði.

25. grein – Kjaradeilusjóður
Kjaradeilusjóður hefur það hlutverk að styrkja stöðu félagsfólks í vinnudeilum. Í kjaradeilusjóð skulu árlega renna 10 prósent af greiddum félagsgjöldum félagsfólks með fulla aðild. Stjórn IÞÍ setur úthlutunarreglur og ákveður upphæð úthlutunar hverju sinni í samræmi við fjárhag sjóðsins.

VIII. KAFLI: ÝMIS ÁKVÆÐI 

26. grein – Réttindi og skyldur
Allt félagsfólk skal fara að lögum félagsins og lögum nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn og halda í heiðri siðareglur iðjuþjálfa. Félagar skulu í störfum sínum byggja á gagnreyndri þekkingu og viðurkenndu verklagi innan fagsins.
Skil á greiðslum félagsgjalda eru forsenda þess að félagsfólk njóti réttinda í félaginu þar með talið kjörgengis og kosningaréttar auk þátttöku í félags- og fræðslustarfsemi. Ef félagi greiðir ekki fagfélagsgjald tvisvar sinnum í röð, missir viðkomandi félagsréttindi sín. Uppgjör á skuld eða samkomulag þar um veitir aðild að nýju.
Um rétt félagsfólks til að sækja um styrki úr sjóðum félagsins og þeim sjóðum sem félagið á aðild að fer samkvæmt þeim reglum sem gilda um viðkomandi sjóði.

27. grein – Breytingar á lögum félagsins
Lögum félagsins er einungis unnt að breyta á aðalfundi og þurfa lagabreytingatillögur að berast til stjórnar í síðasta lagi tveimur vikum fyrir aðalfund. Lagabreytingartillaga nær fram að ganga ef meirihluti atkvæðisbærra félaga greiðir atkvæði með henni og löglega er boðað til fundarins.

28. grein – Félagsslit
Slíta má félaginu á fundi sem hefur verið til þess boðaður sérstaklega óski 3/4 hluti félagsfólks þess. Félagið leggst niður ef fjöldi félaga fer niður fyrir lágmark, sem er fjórir.

29. grein – Gildistaka laga
Með samþykki þessara laga falla þegar úr gildi eldri lög félagsins.

Til baka Senda grein