Lög IÞÍ

Lög Iðjuþjálfafélags Íslands - síðast samþykkt á aðalfundi 20. maí 2020

1.gr. Heiti og skilgreining

Heiti félagsins er Iðjuþjálfafélag Íslands, skammstafað IÞÍ. Iðjuþjálfafélag Íslands er fagstéttarfélag iðjuþjálfa. Lögheimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Markmið félagsins

Markmið félagsins eru:

  • að gæta hagsmuna iðjuþjálfa og efla samvinnu og samheldni innan stéttarinnar.
  • að efla þróun og standa vörð um gæði iðjuþjálfunar á Íslandi.
  • að stuðla að bættri menntun og aukinni faglegri vitund iðjuþjálfa.
  • að efla samstarf við iðjuþjálfa erlendis og tengsl við hliðstæða starfshópa innan lands sem utan.
  • að kynna menntun og starf iðjuþjálfa.
  • að vinna að heilbrigði landsmanna.
Félagið hefur ekki afskipti af stjórnmálum.

3.gr. Félagar

3.1.  Allir iðjuþjálfar, sem hlotið hafa löggildingu samkvæmt lögum nr. 75 frá 1977, hafa rétt til að gerast fullgildir félagar í IÞÍ. Með greiðslu félagsgjalda njóta þeir allra þeirra réttinda sem IÞÍ hefur upp á að bjóða. Þessi réttindi eru kjörgengi í stjórn og nefndir, kosninga- og atkvæðisréttur og þátttaka í félags- og fræðslustarfsemi.  Iðjuþjálfar sem ekki starfa eftir kjarasamningum IÞÍ geta sótt um fagaðild að félaginu.  Njóta þeir sömu réttinda og aðrir félagar að undanskildum þeim er varða kjaramál.
3.2.  Nemum í iðjuþjálfun gefst kostur á nemendaaðildað Iðjuþjálfafélagi Íslands. Nemenda aðild felur í sér málfrelsi og tillögurétt á félags- og fræðslufundum.
3.3.  Heiðursfélagi er kjörinn með samþykki allra í stjórn og skal kjöri hans lýst á næsta aðalfundi.

4. gr. Stjórn félagsins

4.1.  Stjórn Iðjuþjálfafélags Íslands fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda og fylgir eftir lögum þess og samþykktum.
4.2.  Í stjórn sitja 4 fulltrúar auk formanns og tveggja varafulltrúa. Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund skulu þeir skipta með sér verkum varaformanns, ritara, gjaldkera, meðstjórnanda og fulltrúa í COTEC. Stjórnarfundur telst löglegur ef minnst þrír fulltrúar sitja hann, þar af annað hvort formaður eða varaformaður.
4.3.  Stjórnarkosningar eru leynilegar og fara fram á aðalfundi. Kosið skal um mest tvo stjórnarfulltrúa og einn varafulltrúa í hvert sinn og sitja þeir 2 ár í senn. Formaður skal kosinn rafrænt til tveggja ára 4 vikum fyrir aðalfund, hann skal jafnframt vera formaður kjaranefndar. Komi ekki mótframboð gegn sitjandi formanni telst hann sjálfkjörinn án kosningar.

5. gr. Nefndir

5.1.  Fastar nefndir í IÞÍ eru fræðslu- og kynningarnefnd, ritnefnd, fræðileg ritstjórn, kjaranefnd og siðanefnd. Fulltrúar í fræðslu- og kynningarnefnd, ritnefnd og kjaranefnd skulu kosnir á aðalfundi og eru ábyrgir gagnvart stjórn. Fulltrúar í siðanefnd og fræðilegri ritstjórn eru skipaðir af stjórn.
5.2.  Fræðslu- og kynningarnefnd er skipuð 8 fulltrúum, þar af eru 3 staðsettir á Norður- og Austurlandi. Fulltrúar eru kjörnir til tveggja ára í senn. Ekki má skipta um alla nefndarmenn á sama tíma. 
5.3.  Ritnefnd er skipuð 5 fulltrúum og eru fulltrúar kjörnir til tveggja ára í senn. Ekki má skipta um alla nefndarmenn á sama tíma.
5.4.  Fræðileg ritstjórn er skipuð þremur fulltrúum og eru fulltrúar skipaðir til tveggja ára í senn. Ekki má skipta um alla nefndarmenn á sama tíma.
5.5.  Kjaranefnd er skipuð 9 fulltrúum, þar af 2 varafulltrúum. Fulltrúar í kjaranefnd eru kosnir til tveggja ára í senn. Ekki má skipta um alla nefndarmenn á sama tíma.
5.6.  Siðanefnd er skipuð 3 fulltrúum og 3 til vara og eru fulltrúar skipaðir til tveggja ára í senn. Ekki má skipta um alla nefndarmenn á sama tíma.
5.7.  Kjörnefnd er skipuð af stjórn minnst 8 vikum fyrir aðalfund og skal sjá til þess að næg framboð berist fyrir stjórnar- og nefndarkjör á aðalfundi.
5.8.  Nefndir er sjá um tímabundin verkefni eru ákveðnar á félagsfundum eða eru skipaðar af stjórn.

6. gr. Fulltrúar félagsins

6.1.  IÞÍ á 3 fulltrúa í Heimssambandi iðjuþjálfa (World Federation of Occupational Therapists, skammstafað WFOT) og eru þeir kosnir á aðalfundi. Formaður IÞÍ eða annar stjórnarmeðlimur skal vera einn þessara fulltrúa. Fulltrúar í Heimssambandi iðjuþjálfa eru kjörnir til fjögurra ára í fyrsta sinn sem þeir hljóta kosningu, en endurkjör er til tveggja ára.
6.2.  IÞÍ á einn fulltrúa í Iðjuþjálfanefnd Evrópuþjóða (Council of Occupational Therapists of the European Countries, skammstafað COTEC) og skal sá vera formaður félagsins.
6.3.  Fulltrúar í íslenskum samtökum eru kosnir á aðalfundi til tveggja ára í senn.

7. gr. Fjármál

7.1.  Félagsgjald og hvernig það er innheimt skal ákveðið á aðalfundi hverju sinni.
7.2.  Félagsgjöld þeirra sem félagið hefur samningsrétt fyrir skulu ákveðin sem hlutfall af launum og annast félagið innheimtu þeirra mánaðarlega.
7.3.  Félagsgjöld annarra félagsmanna skulu ákveðin sem fast árgjald og stjórn félagsins ákveður hvernig það er innheimt.
7.4.  Lífeyrisþegar og heiðursfélagar greiða ekki félagsgjöld, en halda fullum félagsréttindum.
7.5.  Reikningsár félagsins er almanaksárið. Stjórn IÞÍ skal birta endurskoðaða reikninga félagsins árlega. Skal það gert eigi síðar en 2 vikum fyrir aðalfund.

8. gr. Sjóðir

8.1.  Vísindasjóður Iðjuþjálfafélags Íslands er stofnaður samkvæmt 8. gr. kjarasamnings IÞÍ, f.h. ríkisstarfsmanna, við fjármálaráðherra, frá 18. maí 1989. Sjóðurinn starfar eftir reglum sem settar voru af sömu aðilum 9. nóvember 1990. Starfsreglur sjóðsins eru settar samkvæmt 4. gr. reglnanna. Fulltrúi og umsjónarmaður Vísindasjóðs er gjaldkeri félagsins.Úthlutað er árlega úr sjóðnum og skal úthlutun fara fram á fyrsta ársfjórðungi ár hvert. Einungis félagar í IÞÍ, sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn, eiga rétt á úthlutun.
8.2.  Fræðslusjóður Iðjuþjálfafélags Íslands er stofnaður samkvæmt samþykkt aðalfundar félagsins frá 21. mars 1998. Breytingar á starfsreglum eru háðar samþykki aðalfundar. Stjórn IÞÍ skipar 3 fulltrúa í sjóðsstjórn, til þriggja ára í senn, og skal skipunin tilkynnt á aðalfundi IÞÍ. Ekki má skipta um alla stjórnarmenn í einu. Úthlutun úr sjóðnum fer fram tvisvar sinnum á ári. Einungis skuldlausir félagar með fulla aðild eða fagaðild að IÞÍ, geta sótt um styrk úr fræðslusjóði.
8.3.  Kjaradeilusjóði Iðjuþjálfafélags Íslands er ætlað að styrkja stöðu félaga í vinnudeilum. Í kjaradeilusjóð skulu árlega renna tíu prósent af greiddum félagsgjöldum. Stjórn IÞÍ setur úthlutunarreglur og ákveður upphæð úthlutunar hverju sinni í samræmi við fjárhag sjóðsins. 

9. gr. Fundir

9.1.  Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Skal hann haldinn fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Skýrslur nefnda vegna starfsemi ársins á undan skulu hafa borist stjórn í hendur eigi síðar en 31. janúar ár hvert. Þá skulu skriflegar  lagabreytingatillögur hafa borist á sama tíma.
Allir félagsmenn eiga rétt á setu á aðalfundi. Fundarboði skal dreift til félagsmanna, ásamt skýrslum nefnda og lagabreytingatillögum ef einhverjar eru ,minnst tveimur vikum fyrir aðalfund. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans er boðað. 

Á dagskrá aðalfundar skal vera:
a)  Skýrsla stjórnar
b) Endurskoðaðir reikningar félagsins kynntir og bornir undir fundinn
c) Lagabreytingar
d) Fjárhagsáætlun stjórnar kynnt og ákvörðun félagsgjalds
e)  Umræður um skýrslur fastra nefnda
f)  Kosning
    - formanns,
    - fulltrúa í stjórn
    - fulltrúa í fastar nefndir
    - fulltrúa í félagasamtök sem IÞÍ á aðild að
    - tveggja skoðunarmanna reikninga
g)  Skipan tilkynntar:
    - stjórnar fræðslusjóðs
    - stjórnar siðanefndar
    - fræðilegrar ritstjórnar
h) Önnur mál
 
Ef þörf krefur getur stjórn félagsins eða helmingur félaga kallað saman til aukaaðalfundar með útsendingu dagskrár tveimur vikum áður.
9.2.  Félagsfundir
Slíkir fundir eru boðaðir af stjórn, einhverri nefnd, eða að ósk 1/3 félagsmanna. Á félagsfundum fara fram umræður um málefni eða tillögur varðandi félagsstarfsemina og atkvæðagreiðslur þar að lútandi.
9.3.  Nefndarfundir
Nefndir halda sína fundi svo oft sem þörf krefur, þó að lágmarki 2  sinnum á ári. Hver nefnd skal skipa ritara sem gerir  fundargerðir.

10. gr. Atkvæðagreiðsla

10.1.  Félagar með fulla aðild hafa atkvæðisrétt í öllum málum og félagar með fagaðild hafa atkvæðisrétt í öllum málum nema þeim er snerta kjaramál.
10.2.  Um atkvæðagreiðslur um öll málefni önnur en lagabreytingar gildir eftirfarandi: Tillaga skoðast samþykkt greiði meirihluti viðstaddra atkvæði með henni.

11. gr. Breytingar á lögum félagsins

Breytingar á lögum félagsins geta aðeins farið fram á aðalfundi. Tillögur um breytingar skulu hafa borist stjórninni í hendur eigi síðar en 31. janúar. Stjórnin annast síðan dreifingu tillaganna til félaga ásamt dagskrá aðalfundar. Skriflegar athugasemdir við lagabreytingatillögur skulu berast í síðasta lagi við setningu aðalfundar. Breytingartillaga nær fram að ganga greiði 2/3 viðstaddra, atkvæðisbærra félaga atkvæði með henni og löglega er boðað til fundarins.

12. gr. Upplausn félagsins

Félagið leggst niður óski 3/4 félaganna þess, eða ef fjöldi félaga fer niður fyrir lágmark, sem er 4 félagar. 

13. gr. Gildistaka laganna

Lög þessi öðlast þegar gildi.

Lagabreytingar sl. ár (frá 2004):
Breytt 2007
Breytt 2008
Breytt 2011
Breytt 2013
Breytt 2015
Breytt 2018
Breytt 2019
Breytt 2020

Til baka Senda grein