Nám í iðjuþjálfun

Býður upp á fjölbreyttan starfsvettvang

Iðjuþjálfar þurfa að búa yfir góðri þekkingu á uppbyggingu og starfsemi mannslíkamans, sálarfræði, félagsfræði og þroskaferli mannsins. Sérþekking iðjuþjálfa grundvallast á vísindum um iðju mannsins. Hægt er að læra iðjuþjálfun víða um heim og á heimasíðu Heimssambands iðjuþjálfa (World Federation of Occupational therapists, WFOT) má sjá hvaða námsleiðir eru viðurkenndar af WFOT.

Hér á landi býður Háskólinn á Akureyri upp á nám í iðjuþjálfunarfræði og iðjuþjálfun. Nám í iðjuþjálfunarfræði er 180 ECTS einingar eða þriggja ára nám til BS gráðu og nauðsynlegur undirbúningur fyrir 60 ECTS eininga eins árs starfsréttindanám á meistarastigi í iðjuþjálfun. Til að geta starfað sem iðjuþjálfi þarf að ljúka starfsréttindanáminu og fá starfsleyfi hjá Embætti landlæknis. Um iðjuþjálfa gilda lög nr. 34/2012 um heilbrigðisstarfsmenn.

Í náminu sem byggir bæði á heilbrigðis- og félagsvísindum er skoðað hvernig umhverfið, líkamlegir og hugrænir þættir hafa áhrif á það sem fólk tekur sér fyrir hendur í daglegu lífi. Stór hluti starfsréttindanámsins fer fram á vettvangi í fjölbreytilegu starfsumhverfi iðjuþjálfa.

BS próf í iðjuþjálfunarfræði opnar möguleika til ýmissa starfa innan velferðarþjónustu, menntastofnana, félagasamtaka og á almennum vinnumarkaði. Þau sem ljúka viðbótarnámi í iðjuþjálfun öðlast starfsréttindi og geta til dæmis unnið við ýmiss konar endurhæfingu, vinnuvernd, aðlögun umhverfis, geðvernd, heilsueflingu og forvarnarstarf sem stuðlar að auknum lífsgæðum fólks. Iðjuþjálfar starfa ýmist innan eða utan stofnana samfélagsins, hjá hinu opinbera eða í einkageiranum. Þeim iðjuþjálfum sem eru sjálfstætt starfandi fjölgar einnig jafnt og þétt.

Ertu starfandi iðjuþjálfi? Af hverju ekki að leiðbeina nemanda í iðjuþjálfun? Það eru ýmsir kostir við það eins og Erna Sveinbjörnsdóttir, iðjuþjálfi í Geðþjónustu Landspítala Háskólasjúkrahúss fjallar um í grein sinni í Iðjuþjálfanum: „Ég hvet alla iðjuþjálfa sem hafa tök á að taka á móti iðjuþjálfanemum að gera það. Bæði gefur það okkur iðjuþjálfum tækifæri til að vaxa og dafna í starfi ásamt að gefa iðjuþjálfanemum fleiri námstækifæri og fjölbreyttari möguleika á að finna starfsvettvang við sitt hæfi“ – segir Erna. Hafa má samband við Helenu eða Hafdísi Hrönn verkefnastjóra vettvangsnáms fyrir frekari upplýsingar.

Mikil þörf er á þekkingu og starfskröftum iðjuþjálfa bæði hér á land og víða um heim. Því er spáð að eftirspurn eftir iðjuþjálfum muni aukast um 16% á næstu árum á heimsvísu (heimild: Forbes). Með aukinni áherslu á forvarnir og endurhæfingu fólks eykst þörfin á fagfólki eins og iðjuþjálfum til að starfa í grunnþjónustu velferðarkerfisins og í nærsamfélaginu þar sem fólk á öllum aldri býr, starfar og sinnir tómstundaiðju. Kynningu á iðjuþjálfun má finna í Fréttablaðinu frá 2020 „Aðstoða fólk við að láta hversdaginn ganga upp.“

Til baka Senda grein