Fréttir

8. mars 2022

8.3.2022

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna vildu 10 aðildarfélög innan BHM koma á framfæri afstöðu sinni til kynbundins misréttis. Formaður IÞÍ hafði frumkvæði að yfirlýsingunni og hana má lesa hér að neðan:

Í ljósi samfélagsumræðu undanfarin misseri vilja undirrituð aðildarfélög BHM koma því á framfæri að þau fordæma allt ofbeldi, þar með talið kynbundið og kynferðislegt ofbeldi.

Við trúum þolendum ofbeldis og stöndum með þeim.

Rannsóknir á alþjóðavísu sýna að um helmingur kvenna á vinnumarkaði hefur upplifað kynferðislega áreitni. Fyrstu niðurstöður íslenskrar rannsóknar sýna að 40% kvenna hér á landi hafa orðið fyrir líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Alls 32% hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á vinnustað og 14% glíma við einkenni áfallastreituröskunar sem hamla þeim í daglegu lífi.

Við skorum á stjórnvöld, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og einstaklinga að leggja sitt af mörkum til að uppræta menningu, venjur og samskipti sem næra þann jarðveg kvenfyrirlitningar sem kynbundið ofbeldi sprettur úr. Vitað er að slík menning hefur áhrif á viðhorf og kerfi samfélagsins, meðal annars verðmætamat starfa sem teljast hefðbundin kvennastörf.

Við erum sem samfélag komin áleiðis en samt er langt í land þegar horft er til tölulegra staðreynda. Afleiðingar ofbeldis og kerfisbundins kynjamisréttis á lýðheilsu og lífsgæði kvenna eru miklar og neikvæðar fyrir öll kyn. Breytinga er þörf!

Félag geislafræðinga (FG)
Félag háskólakennara á Akureyri (FHA)
Félagsráðgjafafélag Íslands (FÍ)
Félag íslenskra félagsvísindamanna (FÍF)
Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN)
Félag lífeindafræðinga (FL)
Félag sjúkraþjálfara (FS)
Iðjuþjálfafélag Íslands (IÞÍ)
Sálfræðingafélag Íslands (SÍ)
Þroskaþjálfafélag Íslands (ÞÍ)