Fréttir

Aðalfundur 2024

22.3.2024

Þann 20. mars síðastliðinn fór fram aðalfundur Iðjuþjálfafélags Íslands (IÞÍ) í 48. sinn. Fundurinn var blanda af stað- og fjarfundi og um 70 félagar skráðir til leiks.

Ójöfnuður í heilsu
Á undan aðalfundi var boðið upp á fræðsluerindi þar sem Sigrún Ólafsdóttir prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands hélt fyrirlestur um ójöfnuð í heilsu á Íslandi og víðar. Hún fjallaði um kenningar og áhrifaþætti, með áherslu á hvernig skilningur og hugmyndir fræðafólks hafa þróast í takt við aukna þekkingu og breytta samfélagsgerð. Sigrún fór yfir yfirgripsmiklar rannsóknir þvert á lönd og undirstrikaði mikilvægi þess að samfélög settu sér stefnu til að draga úr ójöfnuði í heilsu og mótuðu slíka stefnu út frá fyrirliggjandi þekkingu. Ljóst væri að margar breytur hefðu áhrif á jöfnuð í þessum efnum og sérstakar aðgerðir þyrfti til að ná til hópa sem væru í viðkvæmri stöðu.

Hefðbundin dagskrá
Samkvæmt lögum félagsins þá liggur dagskrá aðalfundar fyrir. Þóra Leósdóttir formaður IÞÍ setti fundinn og tilnefndi fundarstjóra og fundarritara. Þegar lögmæti aðalfundar hafði verið staðfest fékk formaður orðið að nýju og flutti skýrslu stjórnar í máli og myndum. Hún minntist Kristjönu Fenger iðjuþjálfa og lektors við Háskólann á Akureyri en hún lést í nóvember á síðasta ári. Í skýrslu stjórnar var meðal annars farið yfir ýmsa tölfræði sem varðar iðjuþjálfa, erlent samstarf, þátttöku í kvennaverkfalli, málþingið á alþjóðlegum degi iðjuþjálfunar, útgáfu og fræðslustarfsemi, þátttöku á vettvangi BHM auk þess sem kjaramálunum voru gerð stutt skil. Ennfremur var farið yfir niðurstöður könnunar um kaup og kjör félagsfólks sem IÞÍ lagði fyrir félagsfólk með stéttarfélagsaðild.

Katrín Ósk gjaldkeri fór yfir ársreikninga sem voru samþykktir í atkvæðagreiðslu. Fjárhagsáætlun var kynnt og rædd auk þess sem tillaga stjórnar um óbreytt félagsgjöld var lögð fram og samþykkt með meirihluta atkvæða.

Kosningar
Kjörnefnd 2024 gerði grein fyrir niðurstöðum en í henni sátu þær Ásbjörg Magnúsdóttir, Rósa Gunnsteinsdóttir og Sif Þórsdóttir. Fastar nefndir og stjórnir innan IÞÍ eru fræðslunefnd, ritnefnd, fræðileg ritstjórn, siðanefnd og stjórn fagþróunarsjóðs. Vel gekk að útvega framboð í laus sæti og var sjálfkjörið í þau öll. Nám og störf nýrra fulltrúa voru kynnt og þeim sem hafa lokið hlutverkum sínum þökkuð vel unnin störf á liðnum árum. Þær stöllur minntu okkur öll á það að við erum félagið og starfsemin byggir á framlagi okkar allra. Það að gegna trúnaðarstörfum fyrir félagið geti gefið mörg skemmtileg tækifæri og víkkar út tengslanetið. Við í stjórn félagsins viljum þakka Hörpu Björgvinsdóttur sem hefur verið ritari stjórnar frá 2021 sérstaklega fyrir hennar framlag.

Önnur mál
Fyrst ber að nefna breytingar á siðareglum IÞÍ. Endurskoðun þeirra er á ábyrgð stjórnar félagsins. Starfshópur sem í voru tveir fulltrúar stjórna, aðalmenn og varamenn siðanefndar hefur unnið að endurskoðun siðareglnanna undanfarna mánuði. Drög með tillögum að breytingum voru send til félagsfólks í tvígang. Ábendingar bárust frá tveimur félagsmönnum og voru þær ræddar og metnar af starfshópnum. Breyttar siðareglur voru aðgengilega á innri vef IÞÍ tveimur vikum fyrir aðalfund til þess að félögum gæfist svigrúm til að kynna sér þær vel. Endurskoðaðar siðareglur voru bornar upp til atkvæða á aðalfundinum og samþykktar með miklum meirihluta. Sonja Stelly sitjandi deildarforseti Iðjuþjálfunarfræðideildar við Háskólann á Akureyri vakti máls á því að nú er stór hópur á leið í viðbótarnámið til starfsréttinda í iðjuþjálfun næsta haust. Því miður eru ekki til staðar næg vettvangsnámspláss hjá starfandi iðjuþjálfun eins og staðan er í dag. Ef sú staða breytist ekki þá þarf að grípa til fjöldatakmarkana í starfsréttindanámið og aðeins 25 komast áfram. Þetta er grafalvarlegt ekki síst í ljósi þess að skortur er á iðjuþjálfum úti í samfélaginu og því brýnt að mennta fleiri. Að auki er það verulega neikvætt fyrir nemendur sem hafa lagt hart sér í grunnnáminu, heil þrjú ár að geta ekki útskrifast sem iðjuþjálfar eftir fjórða árið eins og stefnt var að. Nemendur og kennarar Iðjuþjálfunarfræðideildar senda því ákall til starfandi iðjuþjálfa og vinnustaða þeirra um að bjóða upp á vettvangsnámspláss næsta vetur. Nokkrir félagar tóku til máls á aðalfundinum og hvöttu kollegana til að taka að sér nema, þetta væri bæði skemmtilegt og gefandi faglega þar sem það styrkti þá tvímælalaust í starfi. Stjórn IÞÍ tekur heilshugar undir þetta og við segjum: Með samstilltu átaki gerum við þetta!

Glærur sem og önnur skjöl aðalfundar eru aðgengileg félagsfólki á innri vef heimasíðunnar.

Kær kveðja, fyrir hönd stjórnar IÞÍ

Þóra Leósdóttir, formaður