Fréttir

Aðalfundur IÞÍ haldinn

7.4.2022

Aðalfundur Iðjuþjálfafélags Íslands (IÞÍ) fór fram 30. mars síðastliðinn. Þessi fundur var sá 46. í röðinni en félagið var stofnað 10. mars 1976. Líkt og lög IÞÍ gera ráð fyrir þá var fundurinn blanda af staðfundi og fjarfundi. Alls sóttu 44 félagar fundinn þar af voru 17 í fjarfundi.

Dagsrkáin var hefðbundin og samkvæmt lögum félagsins. Formaður minntist Ingibjargar Pétursdóttur (Bimbu) iðjuþjálfa en hún lést þann 18. mars á þessu ári. Bimba var einstök fagmanneskja sem lagði mikið af mörkum til iðjuþjálfunarfagsins hér á landi. 

Skýrsla stjórnar var flutt í máli og myndum. Ársreikningar kynntir og samþykktir auk fjárhagsáætlunar. Tillaga stjórnar um óbreytt félagsgjöld var samþykkt. Engar lagabreytingatillögur bárust fyrir fundinn þannig að lög félagsins eru óbreytt. Formaður kjörnefndar kynnti niðurstöður kosninga í stjórnir og nefndir fyrir starfsárið 2022 auk þess sem skipan var tilkynnt. Undir liðnum önnur mál voru samþykkt stofnskjöl fyrir faghópa um iðjuþjálfun barna, aldraðra og Iðjuseðil. Fundagögn aðalfundar má finna á innri vef heimasíðu IÞÍ. 

Fundarstjórar voru þær Gerður Gústavsdóttir og Hrönn Birgisdóttir. Að loknum fundi var langþráð samvera með léttum veitingum hér í Borgartúni 6. Fyrir hönd stjórnar þakka ég kærlega fyrir þátttökuna og sérstaklega vil ég þakka þeim fulltrúum sem gegnt hafa trúnaðarstörfum fyrir félagið á liðnu starfsári innilega fyrir þeirra framlag. 

Þóra Leósdóttir, formaður IÞÍ