Fréttir

Brautskráning 28 iðjuþjálfa

18.6.2025

Háskólahátíð fór fram við Háskólann á Akureyri 13 og 14 júní síðastliðinn. Alls brautskráðust 28 kandídatar úr framhaldsnámi á iðjuþjálfunarbraut en um er að ræða viðbótardiplóma upp á 60 ECTS einingar til starfsréttinda sem iðjuþjálfi

Þetta er fjölmennasti árgangurinn sem útskrifast með viðbótardiplóma til starfsréttinda í iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri frá upphafi. Það var því mikil gleði hjá okkur í Iðjuþjálfafélagi Íslands að bjóða verðandi iðjuþjálfum til móttöku að útskriftarathöfn lokinni. Ekki skemmdi blíðskaparveðrið fyrir norðan. 

Við óskum nýjum iðjuþjálfum innilega til hamingju með áfangann og bjóðum þá velkomna í fag- og stéttarfélag iðjuþjálfa á Íslandi. 

Starfsréttindanám í iðjuþjálfun er framhald af BS námi í iðjuþjálfunarfræði og ætlað þeim sem stefna á að starfa sem iðjuþjálfar og vinna með einstaklingum, hópum og samfélögum með það að markmiði að efla iðju, þátttöku, heilsu og velferð fólks á öllum aldri. Gráðan tryggir starfsleyfi frá Embætti landlæknis til að vinna sem iðjuþjálfi á Íslandi. Alþjóðleg viðurkenning námsins opnar einnig möguleika á frekara námi og störfum erlendis.