Fréttir

Fjórða hver 50-66 ára kona öryrki

22.8.2025

Samanburðarrannsókn (júlí 2025) unnin af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands fyrir Tryggingastofnun og í samstarfi við félags- og húsnæðismálaráðuneytið, Velferðarvaktina og Vinnueftirlitið um reynslu og aðstæður kvenna með örorkulífeyri var kynnt á málþingi síðastliðinn miðvikudag. Megintilgangur skýrslunnar er að auka þekkingu á því hvers vegna konur, 50–66 ára, eru líklegri en karlar til að fá örorkulífeyri, með samanburði milli kvenna með örorkulífeyri og kvenna á sama aldri í almennu þýði, auk samanburðar milli kynja í TR-úrtaki. 

Helstu niðurstöður:

  • Menntun og tekjur: Hærra hlutfall kvenna í rannsóknarhópi hefur aðeins lokið grunnmenntun og býr við lægri heimilistekjur; 26% undir 401 þús. kr. á mánuði miðað við 6% í samanburðarhópi. Erfiðleikar við að ná endum saman eru tíðari (34% vs. 21%).
  • Húsnæði og fjölskyldustaða: Konur með örorkulífeyri eru sjaldnar í eigin húsnæði, oftar einhleypar og hafa oftar gengið í gegnum skilnað eða sambúðarslit. Hærra hlutfall þeirra hefur verið einstætt foreldri (58% vs. 43%). Þær hafa oftar orðið fyrir því að vera sagt upp húsnæði eða misst íbúð.
  • Umönnunarbyrði og börn: Þær eru oftar með börn með langvinn veikindi, raskanir eða fíknivanda. Umönnun barna, bæði undir og yfir 18 ára, hvílir oftar alfarið á konum með örorkulífeyri.
  • Ofbeldi og áföll: Tíðni líkamlegs, andlegs og kynferðislegs ofbeldis er mun hærri, bæði í bernsku og á fullorðinsárum, t.d. kynferðisofbeldi sem barn (28% vs. 17% karla í TR) og sem fullorðin (27% vs. 3% karla). Andlegt ofbeldi/einelti er algengara (51% eftir fullorðinsaldur vs. 42%).
  • Vinnuaðstæður: Konur með örorkulífeyri hafa oftar starfað í heilbrigðis- og félagsþjónustu, oftar í vaktavinnu og við krefjandi aðstæður. Líkamsálag (óþægilegar stellingar, lyftingar, endurtekningar) og félags- og tilfinningalegt álag er tíðara. Stór hluti upplifir að vera líkamlega (71%) og andlega (40%) úrvinda eftir vinnudag, marktækt oftar en samanburðarhópur.
  • Endurhæfing og starfshlutfall: Konur höfðu oftar verið í endurhæfingu fyrir umsókn og höfðu oftar val um hlutastarf en karlar í TR-úrtaki, en karlar unnu oftar fleiri vinnustundir.

Í máli Huldu Magnúsdóttir forstjóra TR, Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, hagfræðings BSRB, og Sigríðar Hönnu Gunnsteinsdóttur, forstjóra Vinnueftirlitsins, kom skýrt fram að niðurstöður skýrslunnar eru afar mikilvægar og um margt sláandi. Sérstaklega vekur athygli hlutverk ofbeldis í garð kvenna, í æsku, á fullorðinsárum og á vinnustöðum, sem áhrifavaldur í þróun örorku, oftar samverkandi við þunga umönnunarbyrði, fjárhagslegt og húsnæðislegt óöryggi og krefjandi vinnuaðstæður.Lögð var áhersla á að stjórnvöld verði að taka niðurstöðurnar alvarlega og móta markvissar aðgerðir: stöðva þarf ofbeldi og styrkja forvarnir og úrvinnslu, létta umönnunarbyrði, bæta vinnuvernd og skipulag vinnu (m.a. í vaktakerfum og í umönnunarstörfum), efla endurhæfingu og tryggja aðgengi að öruggu húsnæði og fjárhagslegum úrræðum. Skýrslan varpar þannig ljósi á kerfislæg tengsl kyns, vinnuaðstæðna, áfalla og örorku og kallar á samstillt viðbrögð stjórnvalda og vinnumarkaðar.

Finna má skýrsluna hér

Nánari upplýsingar á vef TR