Fréttir

Heilbrigðisþing og umsögn IÞÍ

2.9.2021

Þann 20. ágúst síðastliðinn boðaði heilbrigðisráðherra til fjórða heilbrigðisþingsins á þessu kjörtímabili. Þingið fjallaði um heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða og var lagt út frá drögum að stefnu í málaflokknum sem nú liggja fyrir og voru til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda.

IÞÍ var boðið að senda tvo fulltrúa á staðfund þingsins á Hilton Reykjavík Nordica og þangað mættu Þóra Leósdóttir formaður og Ásbjörg Magnúsdóttir iðjuþjálfi og teymisstjóri í Heimahjúkrun HH. Að auki var Berglind Indriðadóttir iðjuþjálfi hjá Farsæl Öldrun Þekkingarmiðstöð mætt á svæðið og tók hún einnig þátt í sófaspjalli. Heilbrigðisþingið var vel skipulagt, faglegt og gagnlegt. 

Drögin „Virðing og reisn - Samþætt heilbrigðis- og félagsþjónusta fyrir eldra fólk“ voru fyrst og fremst til umfjöllunar og Halldór S. Guðmundsson dósent við Félagsráðgjafardeild HÍ kynnti þau. Annar lykilfyrirlesari var Samir Sinha forstöðumaður öldrunarlækninga við Sinai spítala í Kanada en hann ræddi hvernig hægt er að þróa og bæta þjónustu við eldra fólk og fyrirbyggja að það festist í dýrum úrræðum á sjúkrahúsum eða þurfi að flytjast á hjúkrunarheimili því stuðningsþjónustan heim dugir ekki til.

Hér má sjá upptökur af Heilbrigðisþingi 2021

Hér má sjá Kastljósþátt með viðtali við Samir Sinah

Hér má sjá drögin að stefnunni og birtar umsagnir um þau í Samráðsgátt stjórnalda 

Umsögn Iðjuþjálfafélags Íslands er merkt #33