Fréttir

Kallað eftir framboðum til embættis formanns IÞÍ

16.12.2022

Kæra félagsfólk í IÞÍ

Ég vil byrja á því að þakka fyrir samstarfið á liðnum árum!

Nú er annað kjörtímabil mitt sem formanns senn á enda. Ég vil þakka ykkur öllum fyrir það traust, stuðning og hvatningu sem þið hafið sýnt mér. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi starfa ef félagsfólk óskar þess. Mér finnst ég bara rétt að byrja.

Fyrir hönd stjórnar IÞÍ vil ég upplýsa um að við stefnum að því að halda aðalfund félagsins þann 16. mars 2023, um eftirmiðdaginn eins og venja er. Formlegt fundarboð með dagskrá verður sent til félagsfólks síðar. Fundargögn verður einnig hægt að finna á innra neti heimasíðunnar þegar nær dregur. 

Úr lögum Iðjuþjálfafélags Íslands:

7. grein – Kosningar og atkvæðagreiðsla
„Kosningar til trúnaðarstarfa og atkvæðagreiðsla um lagabreytingar skulu vera leynilegar komi fram um það tillaga studd af þremur félögum. Einfaldur meirihluti ræður í atkvæðagreiðslu.

Formaður félagsins er kosinn til tveggja ára í senn. Við lok kjörtímabils formanns skal kallað eftir framboðum til embættisins eigi síðar en þremur mánuðum fyrir aðalfund og lýkur framboðsfresti þremur vikum fyrir aðalfund. Frambjóðendur fá tvær vikur til að kynna sig. Kosning formanns skal vera rafræn, hefjast viku fyrir aðalfund og standa yfir í þrjá daga. Gefi sitjandi formaður kost á sér áfram og mótframboð berst ekki, telst hann sjálfkjörinn án kosningar.

Kallað er eftir framboðum í stjórn félagsins, nefndir og stjórnir eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund og lýkur framboðsfresti tveimur vikum fyrir aðalfund. Heimilt er að kjósa rafrænt í stjórn og fastar nefndir IÞÍ séu fleiri en einn í framboði miðað við sæti. Hafi ekkert framboð komið fram í eitthvert embætta félagsins, er hægt að bjóða sig fram á aðalfundi.“

Hafi félagi áhuga á að bjóða sig fram til formennsku þá þarf viðkomandi að vera með fulla aðild að IÞÍ. Framboð óskast tilkynnt á skrifstofu félagsins á sigl@bhm.is fyrir miðvikudaginn 23. febrúar 2023. Samkvæmt lögum félagsins skal formaður kosinn rafrænt viku fyrir aðalfund. Komi ekki mótframboð telst formaður sjálfkjörinn án kosningar.

Kjörnefnd mun afla framboða í laus sæti eins og venja er en við hvetjum öll þau sem hafa áhuga á að sinna trúnaðarstörfum fyrir IÞÍ að láta heyra frá sér með því að senda tölvupóst á sigl@bhm.is.

Með jólakveðju og þakklæti,

Þóra Leósdóttir, formaður IÞÍ