Kjaraviðræður IÞÍ
Iðjuþjálfafélag Íslands (IÞÍ) er í samstarfi við 10 önnur aðildarfélög innan BHM í kjaraviðræðum við ríkið. Fundað hefur verið reglulega frá því snemma í vor og ljóst að enn ber nokkuð í milli. Eins og komið hefur fram í fréttum er eitt aðildarfélag af 24 innan bandalagsins búið að gera kjarasamning við ríkið.
IÞÍ er einnig í viðræðum við aðra launagreiðendur á opinberum vinnumarkaði. Hvað Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög varðar þá er IÞÍ í samstarfi við fimm önnur aðildarfélög innan BHM. Fundað hefur verið með báðum þessum viðsemjendum reglulega.
Opinberir launagreiðendur hafa sammælst um að miða kjarasamninga við það sem samið var um á almennum vinnumarkaði í desember síðastliðnum. Ljóst er að það dugar skammt til að tryggja viðunandi launaþróun háskólamenntaðra líkt og ítrekað hefur komið fram í greiningum BHM. Þessu hafa félögin haldið á lofti, með markvissum rökstuðningi en ljóst er að viðfangsefnið er flókið og svigrúm til launahækkana lítið.
Þessa dagana eru samstarfsfélögin að meta tilboð viðsemjenda, kanna útfærslur og mögulegan ávinning fyrir félagsfólk. Í ljósi þess að sumarleyfi eru framundan hafa aðilar komist að samkomulagi um að fresta viðræðum fram yfir hásumarið. Fundir hefjast að nýju eftir Verslunarmannahelgi eða um miðjan ágúst.
Sumarkveðja frá stjórn IÞÍ