Fréttir

Minning um Kristjönu Fenger

Háskólinn á Akureyri - samstarfsfólk skrifar

17.11.2023

Kristjana Fenger, iðjuþjálfi og lektor við Háskólann á Akureyri, lést þann 11. nóvember síðastliðinn. Með fráfalli hennar er stórt skarð höggvið í hóp iðjuþjálfa á Íslandi þar sem Kristjana lagði afar mikið af mörkum til iðjuþjálfafagsins og náms í iðjuþjálfun hér á landi.

Kristjana var ráðin í stöðu lektors í iðjuþjálfunarfræði við háskólann 17. júlí 1998 og lét af störfum 31. ágúst 2020, eftir tuttugu og tveggja ára starf við háskólann. Hún sagði þó ekki skilið við kennsluna og var í stöðu gestalektors við Iðjuþjálfunarfræðideild til 31. maí 2023. Kristjana tók virkan þátt í að byggja upp iðjuþjálfunarfræði sem faggrein hér á landi og var einn af frumkvöðlum námsins. Uppbygging námsins hefur verið einn af lykilþáttunum í eflingu heilbrigðisvísinda á háskólastigi og markaði Kristjana þannig mikilvæg spor í sögu iðjuþjálfunar á Íslandi. Ásamt því að taka þátt í þróun og eflingu iðjuþjálfunarfræðinnar tók Kristjana þátt í þróun framhaldsnáms um starfsendurhæfingu ásamt fleiri aðilum.

Kristjana var virkur fræðimaður og lagði mikið af mörkum þegar kemur að þýðingu og staðfærslu matstækja innan iðjuþjálfunar og gaf út handbækur sem þeim tengjast. Eftir hana liggur fjöldi rannsóknagreina og kaflar í ritstýrðum bókum. Kristjana tók einnig virkan þátt í háskólasamfélaginu okkar en hún var formaður Iðjuþjálfunarfræðideildar 2008 til 2013. Hún var fulltrúi í Öryggisnefnd háskólans 2002 til 2009 og gerði meðal annars fyrsta áhættumat háskólans. Þá sat hún í starfshópi um námsframboð, skipulag, undirbúning, kennslufræði, tækni og gæði í fjarkennslu við háskólann árið 2008.

Þegar Kristjana hóf störf við Háskólann á Akureyri var hann með aðstöðu víða á Akureyri. Hún var í raun sú fyrsta til að kenna á háskólasvæðinu á Sólborg og í viðtali árið 2017 sagði hún skemmtilega frá því þegar hún villtist á leið í kennslu: „Einu sinni hélt ég að ég yrði úti! Það var fyrir fyrstu kennslustundina. Ég fór einhverja fjallabaksleið og lenti uppi í Hlíðarfjalli. Ég bankaði upp á í einhverjum vinnuskúr við nýbyggingar og fann þar smið og sagðist vera að leita að háskólanum eða Sólborg. Þá var enginn byrjaður að kenna á Sólborg og háskólinn dreifður um bæinn. Ég var því fyrst til að kenna hér á Sólborg. Smiðurinn keyrði mig á réttan stað og ég auðvitað öll í stressi fyrir fyrsta kennsludaginn.“

Kristjana naut virðingar og vinsælda meðal samstarfsfólks og nemenda, bæði sem kennari og sem góður vinnufélagi sem gaf mikið af sér í starfi og vináttu. Hún var alla tíð öflugur talsmaður sinnar faggreinar og hvatti fólk til dáða, hvort sem var í námi, kennslu eða starfi, og var í framlínu með þeim sem komu námi í iðjuþjálfunarfræðum á fót á Íslandi. Samstarfsfólk hennar við háskólann mun sakna hvatningar hennar og hlýju og sendir fjölskyldu hennar og vinum innilegar samúðarkveðjur og þakkar gengin spor. 

Greinin er fengin frá vefsíðu HA, 17. nóvember 2023