Norrænn fundur iðjuþjálfafélaga
Dagana 29 og 30 ágúst var haldinn Norrænn fundur formanna og varaformanna iðjuþjálfafélaganna á Norðurlöndum. Þetta er árlegur fundur og skiptast löndin á að vera gestgjafar. Í ár var fundurinn í Reykjavík og skipulagður af stjórn IÞÍ.
Fyrri dagurinn hófst á fræðsluerindum. Ósk Sigurðardóttir iðjuþjálfi og Bergljót Borg sjúkraþjálfari starfa meðal annars sem kennarar við Iðjuþjálfunarfræðideild HA. Þær sögðu frá námskeiði um nýsköpun sem haldið er fyrir þriðja árs nema iðjuþjálfunarfræðum. Mikilvægi þess að bregðast við áskorunum eins og manneklu í heilbrigðiskerfinu er óumdeilt og brýnt að hugsa í nýjum lausnum og nálgun. Námskeiðið hefur þegar sannað gildi sitt og ýtt undir nýsköpun í faginu. Síðara erindið flutti Snæfríður Þóra Egilson iðjuþjálfi og prófessor við Félagsvísindadeild HÍ. Hún ræddi gagnrýnin sjónarhorn í fötlunarfræðum, ableisma og algilda hönnun. Snæfríður rakti nýjar íslenskar rannsóknir og fjallaði um áhrif og tengsl við inngildandi samfélag.
Fluttar voru fréttir frá hverju landi fyrir sig og enn á ný sannast það hversu margt iðjuþjálfafélögin eiga sameiginlegt. Fram kom að það er skortur á iðjuþjálfum á öllum Norðurlöndunum og því brýnt að mennta fleiri í faginu. Verkefnin eru næg nú þegar aukin áhersla er lögð á forvarnir, endurhæfingu og samþætta nærþjónustu við fólk á öllum aldri sem glímir við iðjuvanda af ýmsum ástæðum.
Fundinum lauk svo með aðalfundi stjórnar SJOT (Scandinavian Journal of Occupational Therapy) sem er samnorrænt ritrýnt fagtímarit í eigu iðjuþjálfafélaganna. Aðgangur að efni SJOT er öllum opinn. Fram kom að töluvert er vitnað í rannsóknir sem birtar eru í SJOT á alþjóðavísu og að IP faktor er 1.9 sem er með því hæsta sem gerist í iðjuþjálfunarbransanum. Við hjá IÞÍ hlökkum til næsta fundar sem haldinn verður í Færeyjum að ári.