Fréttir

Nýr framkvæmdastjóri SIGL

27.5.2020

Fjóla Jónsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Þjónustuskrifstofu SIGL. Hún hóf störf þann 1. mars síðast liðinn. Fjóla vann hjá Eflingu stéttarfélagi til fjölda ára og hefur því víðtæka reynslu af vinnumarkaðsmálum. Hún hefur hefur komið að ýmsum sviðum er snerta starfsmenn almennt á vinnumarkaði eins og túlkun og upplýsingagjöf varðandi kjarasamninga, fræðslustarfsemi, nefndastörfum, verkefnum er snúa að atvinnuleitendum, félagsmönnum af erlendum uppruna og fjölmörgu sem snýr að starfsemi stéttarfélaga. 

Fjóla er með BA í félagsfræði frá Háskóla Íslands auk þess sem hún lauk þriggja anna námi í viðskipta- og rekstrarfræði frá Endurmenntun HÍ. Fjóla er einnig lærður markþjálfi frá Profectus. Hún er í sambúð og á tvær dætur. Fjóla var í skátunum á sínum yngri árum og kynntist þar útiveru. Gamli vinahópurinn fer enn 40 árum síðar saman í alls konar ferðir. Eftir að hún hóf störf hjá SIGL smitaðist hún af hjólamenningu vinnustaðarins sem á hug hennar allan þessar vikurnar.

Þjónustuskrifstofa SIGL var sett á laggirnar í september 2003. Margrét Eggertsdóttir gegndi stöðu framkvæmdastjóra frá upphafi og til þessa dags. Henni er þakkað fyrir vel unnin störf, mikið frumkvöðla- og mótunarstarf við uppbyggingu SIGL og góða þjónustu við félagsmenn.

Skrifstofan veitir félagsmönnum í Félagi sjúkraþjálfara, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Félagi geislafræðinga og Félagi lífeindafræðinga þjónustu. SIGL heldur utan um allan daglegan rekstur félaganna, upplýsingagjöf til félagsmanna, aðstoð við formenn og stjórnir félaganna ásamt ýmsum tilfallandi verkefnum er tengjast kjörum og réttindum auk faglegra mála.