Fréttir

Samkomulag við ríkið undirritað

3.4.2023

Formaður IÞÍ fór ásamt formönnum fleiri heilbrigðisfélaga innan BHM til fundar við samninganefnd ríkisins í dag og undirritaði samkomulag um launalið og verkáætlun fyrir næstu 12 mánuði. Samkomulagið felur í sér framlengingu á kjarasamningi aðila frá 2019. Framlengingin nær til 12 mánaða og samið er um verkáætlun er verður unnin á samningastímanum. Ramminn um þetta samkomulag var skilgreindurá borði heildarsamtaka launafólks á opinberum vinnumarkaði það er BHM, BSRB og KÍ. 

Næstu skref eru þau að kynna samkomulagið fyrir því félagsfólki sem tekur laun eftir kjarasamningum IÞÍ við fjármála- og efnahagsráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og þar á eftir verður samningurinn borinn undir atkvæði hópsins.

Samhliða viðræðum heildarsamtaka við viðsemjendur hjá ríki, Reykjavíkurborg og sveitarfélögunum var undirritað áfangasamkomulag um jöfnun launa milli markaða. Það felur í sér fyrsta skref í þá átt að jafna launin hjá þeim starfsstéttum sem búa við kerfisbundinn og ómálefnalegan launamun enda aðilar sammála um að það misrétti þurfi að uppræta. 

Sjá nánar um rammasamkomulag og jöfnun launa á vefsíðu BHM