Fréttir

SJOT skiptir yfir í opinn aðgang

9.6.2022

Fræðiritið „Scandinavian Journal of Occupational Therapy“ (SJOT) kom fyrst út 1994 og er í eigu iðjuþjálfafélaganna á Norðurlöndunum. Í stjórn SJOT eru formenn félaganna og í ritstjórn blaðsins er einn fulltrúi frá hverju landi. Lengi hefur verið unnið að því að skipta yfir í opinn aðgang svo þetta eru sannarlega gleðileg tímamót.

Formaður stjórnar SJOT er Ida Kålin, formaður sænska iðjuþjálfafélagsins og hún segir þetta sögulega ákvörðun. Við tökum heils hugar undir það, en blaðið fer í opinn aðgang í byrjun árs 2023 og er það gert í náinni samvinnu við Taylor & Francis sem eru útfgáfufyrirtækið. SJOT er vettvangur fyrir fræðafólk og rannsakendur innan iðjuþjálfunar á heimsvísu og gaman er að geta þess að blaðið er með hæsta stigafjölda yfir öll fræðirit sem birta rannsóknir innan iðjuþjálfunarfagsins á heimsvísu eða 2,611 í impact factor (mælikvarði á fjölda tilvitnana). Í SJOT eru birtar fræðigreinar sem renna styrkum stoðum undir gagnreynda iðjuþjálfun og efla þekkingargrunn fagsins. Fræðafólk utan Norðurlandanna er ötult við að birta greinar í SJOT.

Ritstjóri SJOT er Anita Björklund Carlstedt og í ritstjórn sitja fulltrúar frá hverju Norðurlandanna. Fyrir Íslands hönd situr þar Dr. Björg Þórðardóttir en hún býr og starfar í Osló. 

Það skiptir miklu fyrir iðjuþjálfunarfagið og ekki síst iðjuþjálfa sem starfa víðs vegar í samfélaginu að hafa greiðan aðgang að nýjustu þekkingu. Þetta skiptir líka máli fyrir annað fagfólk og almenning. Það eru í raun mannréttindi að hafa aðgang að upplýsingum. 

Hér má finna hlekk á vefsíðu SJOT 

Hér má finna hlekk á fréttina hjá Sveriges Arbetsterapeuter