Fréttir

Viðhorfskönnun BHM

kjaramál og vinnuumhverfi

14.1.2020

Niðurstöður nýtast við stefnumótun og til að efla hagsmunagæslu í þágu félagsmanna

Bandalag háskólamanna (BHM) hefur falið fyrirtækinu MMR að gera rafræna könnun á viðhorfum félagsmanna aðildarfélaga til ýmissa þátta er lúta að kjaramálum, vinnuumhverfi og líðan á vinnustað. Niðurstöður munu m.a. nýtast í vinnu við mótun nýrrar stefnu bandalagsins, sem nú stendur fyrir dyrum, og til að efla hagsmunagæslu í þágu félagsmanna.

Könnunin mun ná til allra félagsmanna aðildarfélaga BHM samkvæmt félagaskrá. Þátttakendum verður sendur tölvupóstur með hlekk inn á könnunina. Ítrasta trúnaðar verður gætt við meðferð upplýsinga og ekki verður hægt að rekja svör til einstakra svarenda.

BHM hvetur félagsmenn til að svara könnuninni. Mikilvægt er að sem flestir taki þátt svo niðurstöður nýtist sem skyldi.