Siðareglur IÞÍ

Siðareglur Iðjuþjálfafélags Íslands voru fyrst samþykktar á aðalfundi 10. mars 2001. Þær voru síðan endurskoðaðar 2011 og samþykktar á aðalfundi 18. mars það ár. Síðasta endurskoðun fór fram í byrjun árs 2024 og voru breyttar siðareglur samþykktar á aðalfundi þann 20. mars 2024. 

Með siðareglum er haldið á lofti þeim gildum og meginsjónarmiðum sem iðjuþjálfun byggist á. Þeim er ætlað að vera leiðbeinandi fyrir iðjuþjálfa og nema í iðjuþjálfun auk þess að stuðla að bættri þjónustu iðjuþjálfa. Mælt er með því að atvinnurekendur felli siðareglurnar inn í ráðningar- og starfssamninga iðjuþjálfa. Komi upp óvissa eða ágreiningur varðandi túlkun eða notkun siðareglnanna, er hægt að beina fyrirspurnum til siðanefndar Iðjuþjálfafélags Íslands (IÞÍ). Endurskoðun siðareglnanna er á ábyrgð stjórnar félagsins. Hver sá sem telur að iðjuþjálfi hafi brotið gegn siðareglum þessum getur tilkynnt slíkt til siðanefndar IÞÍ á netfangið idjuthjalfafelag@ii.is merkt „erindi til siðanefndar.“

Sjónarmið iðjuþjálfunar

Iðjuþjálfun byggist á þeirri hugmyndafræði að það sé mikilvægt fyrir heilbrigði og vellíðan fólks að móta og stunda þá iðju sem fullnægir þörfum þess og áhuga. Með iðju er átt við öll þau verk og athafnir sem fólk tekur þátt í til að annast sjálft sig og önnur, njóta lífsins og koma samfélaginu að gagni. Iðjuþjálfar aðhyllast skjólstæðingsmiðaða nálgun og virka þátttöku skjólstæðingsins í öllu þjónustuferlinu. Skjólstæðingar iðjuþjálfa er fólk á öllum aldri, bæði einstaklingar og hópar sem af einhverjum ástæðum stendur frammi fyrir eða glímir við iðjuvanda af ýmsum toga. Iðjuvandi skapast þegar færni er skert eða ef umhverfið takmarkar möguleika fólks til iðju og þátttöku. 

Eftirfarandi er haft að leiðarljósi:

  • Fólk er í eðli sínu virkt og haldið athafnaþörf. Þessari þörf er fullnægt með margs konar iðju sem veitir tilgang, ýtir undir alhliða þroska, eykur færni, þátttöku og lífsgæði
  • Iðja mótast af samspili fólks við umhverfið og með iðju sinni hefur manneskjan áhrif á eigin færni og umhverfi. 
  • Iðjuvandi getur verið orsök eða afleiðing líkamlegra og andlegra erfiðleika eða skapast vegna hindrana og skorts á tækifærum í umhverfinu.
  • Langvarandi iðjuvandi hefur veruleg áhrif á lífshlaup einstaklinga þar eð hann er dregur úr heilbrigði og lífsgæðum fólks auk þess að bitna á þátttöku í samfélaginu.

inngangur

Viðfangsefni iðjuþjálfa eru fjölbreytileg. Leiðarljósið er að standa vörð um og efla iðju, þátttöku, heilbrigði og velferð einstaklinga, hópa og samfélaga. Iðjuþjálfar starfa með fólki á öllum aldri sem af einhverjum ástæðum glímir við iðjuvanda sem hamlar þeim í hversdeginum og hindrar þátttöku. Þjónusta iðjuþjálfa sem og vinnuaðferðir byggja á gagnreyndri þekkingu og viðurkenndu verklagi. Gagnrýnin hugsun, fagmennska og virðing eru leiðarstef í siðareglum iðjuþjálfa.  

1.   Iðjuþjálfi og skjólstæðingar

1.1. Iðjuþjálfi virðir mannhelgi skjólstæðinga sinna og ber hag þeirra fyrir brjósti hver sem starfsvettvangur hans er.

1.2. Iðjuþjálfi gætir fyllstu þagmælsku um þau mál sem hann kann að verða áskynja í starfi sínu. Undantekningu frá þagnarskyldu má einungis gera með leyfi skjólstæðings, samkvæmt lagaboði eða brýnni nauðsyn. Sérstaklega skal hugað að persónuvernd, trúnaði og öryggi þegar um fjarþjónustu er að ræða og fara eftir fyrirmælum landlæknis þar að lútandi.

1.3. Iðjuþjálfi rækir störf sín af fordómaleysi, virðir mannlegan margbreytileika og fer ekki í manngreinarálit vegna kyns, kynþáttar, þjóðernisuppruna, tungumáls, fötlunar, starfsgetu, trúar, lífsskoðana, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna, kyntjáningar, stjórnmálaskoðana, stéttar, líkamsgerðar, heilsufars eða annarrar stöðu.

1.4. Iðjuþjálfi vinnur í nánu samráði við skjólstæðinga sína, virðir þekkingu þeirra og reynslu og tekur mið af þörfum þeirra, færni og aðstæðum þegar þjónustuáætlun er gerð.

1.5. Iðjuþjálfi stuðlar að valdeflingu skjólstæðinga sinna, virðir sjálfsákvörðunarrétt þeirra og upplýsir um valkostina sem koma til greina við lausn á iðjuvanda.

1.6. Iðjuþjálfi vísar skjólstæðingum sínum til annars fagfólks telji hann hag þeirra betur borgið með þeim hætti.

2. IÐJUÞJÁLFI OG starf, rannsóknir og menntun

2.1. Iðjuþjálfi vinnur samkvæmt hugmyndafræði og sjónarmiðum iðjuþjálfunar, axlar þá ábyrgð og virðir þau takmörk sem fylgja menntun hans og starfi.

2.2. Iðjuþjálfi er trúr sannfæringu sinni og getur synjað því að veita íhlutun, sem hann telur sig ekki geta borið faglega ábyrgð á.

2.3. Iðjuþjálfi eykur stöðugt við þekkingu sína, nýtir viðurkennt verklag og styðst við gagnreyndar aðferðir í störfum sínum.

2.4. Iðjuþjálfi nýtir sér rannsóknir og kenningar í starfi og axlar ábyrgð sína á þróun iðjuþjálfunar sem fræðigreinar.

2.5. Hvar sem iðjuþjálfi kemur fram er hann fulltrúi fagstéttarinnar og hefur orðstír hennar í heiðri. Þetta á við um alla tjáningu og framsetningu, jafnt í ræðu sem riti og í hvaða miðlum sem er.

2.6. Iðjuþjálfi sinnir ekki starfi sínu undir áhrifum áfengis, lyfja eða annarra efna sem slæva dómgreind hans og athygli.

3. IÐJUÞJÁLFI OG Samstarfsfólk

3.1. Iðjuþjálfi vinnur af heilindum og heiðarleika í öllu samstarfi með hagsmuni skjólstæðinga sinna að leiðarljósi.

3.2. Iðjuþjálfi miðlar af þekkingu sinni og reynslu til annarra iðjuþjálfa, nemenda og samstarfsfólks.

3.3. Iðjuþjálfi sýnir stéttvísi en virðir jafnframt störf annarra fagstétta og sérþekkingu þeirra.

3.4. Iðjuþjálfi virðir hæfni, skyldur og ábyrgð annarra iðjuþjálfa. Komi upp faglegur ágreiningur skal iðjuþjálfi rýna til gagns, sýna sanngirni og miðla málum svo niðurstaða fáist með hagsmuni skjólstæðinga að leiðarljósi.

3.5. Verði iðjuþjálfi þess var að annar iðjuþjálfi hafi brotið gegn siðareglum þessum, ber honum að ræða það við viðkomandi eða yfirmann hans. Beri ábendingar og viðræður ekki árangur er hægt að óska eftir umfjöllun siðanefndar Iðjuþjálfafélags Íslands eða tilkynna til viðeigandi eftirlitsaðila.

3.6. Verði iðjuþjálfi þess var að samstarfsaðili vinni gegn hagsmunum skjólstæðinga ber honum að ræða málið við viðkomandi, yfirmann hans eða tilkynna til viðeigandi eftirlitsaðila.

3.7. Iðjuþjálfi ber virðingu fyrir fjölbreytileika fólks og leggur sitt af mörkum til að skapa góðan starfsanda. Hann leitast við að eiga góð og uppbyggileg samskipti og tekur þátt í faglegu samstarfi á málefnalegan hátt.

3.8. Iðjuþjálfi tekur ekki þátt í einelti, kynbundinni áreitni, kynferðislegri áreitni eða öðru ofbeldi og bregst við ef hann verður vitni að slíkri háttsemi. Iðjuþjálfi er meðvitaður um að ójöfn valdatengsl geta verið á milli einstaklinga og hópa.

4. IÐJUÞJÁLFI OG Samfélagið

4.1. Iðjuþjálfi nýtir þekkingu og reynslu sína í þágu samfélagsins.

4.2. Iðjuþjálfi eflir og bætir iðjuþjálfun í takt við þróun og breytingar í samfélaginu.

4.3. Iðjuþjálfi sýnir frumkvæði og er virkur þátttakandi í þróun og stefnumótun velferðarmála. Hann lætur sig varða iðju, þátttöku og heilbrigði einstaklinga, hópa og samfélaga.

4.4. Iðjuþjálfi lætur sig varða orðstír og stöðu iðjuþjálfunar meðal almennings, stjórnsýslu og stofnana, bæði hérlendis og á alþjóðlegum vettvangi.

4.5. Iðjuþjálfi auglýsir þjónustu sína eða starfsemi á málefnalegan og faglegan hátt. Hann gefur ekki í skyn faglega yfirburði umfram annað fagfólk á opinberum vettvangi svo sem í auglýsingum, í fjölmiðlum eða á samfélagsmiðlum.

4.6. Umfjöllun iðjuþjálfa um vörur og þjónustu skal vera fagleg og án þess að halda á lofti yfirburðum viðkomandi vöru eða þjónustu.

Til baka Senda grein