Alþjóðleg samvinna
Iðjuþjálfafélag Íslands tekur virkan þátt í alþjóðastarfi innan fagsins. Félagið er meðlimur í Heimssambandi iðjuþjálfa, World Federation of Occupational Therapists (WFOT), einnig í Iðjuþjálfanefnd Evrópuþjóða, Council of Occupational Therapists for European Communities (COTEC). Auk þess á IÞÍ reglulegt samstarf við iðjuþjálfafélögin á hinum Norðurlöndunum þar sem formannafundir eru haldnir árlega. Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi er okkur sem fag- og stéttarfélagi afar mikilvæg. Þannig getum við tekið þátt í faglegri og kjaratengdri umræðu, fylgst með og haft áhrif á þróun iðjuþjálfunar á heimsvísu.
Heimssamband iðjuþjálfa - WFOT
WFOT eru regnhlífarsamtök iðjuþjálfafélaga víða um heim og alþjóðlegur fulltrúi iðjuþjálfa og iðjuþjálfunar. Markmið þeirra er að auka þekkingu fólks á iðjuþjálfun, stuðla að fjölgun iðjuþjálfa á heimsvísu og taka þátt í þróun fagsins bæði á vettvangi rannsókna og þjónustu, hópum og einstaklingum til handa.Til að gerast fullgildur meðlimur í WFOT þarf aðildarlandið að bjóða upp á nám í iðjuþjálfunarfaginu. Ísland varð fullgildur meðlimur 1986 á þeim forsendum að í gildi væri samningur við Danmörku um menntun íslenskra iðjuþjálfa. Heimssambandið hefur meðal annars það hlutverk að fylgjast með gæðum menntunar í aðildarlöndunum og er námið á Íslandi endurmetið á sjö ára fresti.
Fulltrúaþing er haldið annað hvert ár og leitast IÞÍ við að senda fulltrúa þangað. Formaður IÞÍ er aðalfulltrúi félagsins í WFOT og varaformaður er varafulltrúi. Heimssambandið stendur fyrir heimsráðstefnu á fjögurra ára fresti.