Stjórn
Samkvæmt lögum IÞÍ sitja fjórir fulltrúar auk formanns í stjórn félagsins. Þetta eru varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Auk þess eru kosnir tveir varamenn. Stjórnarfulltrúar og varamenn skulu vera með fulla aðild að IÞÍ. Breyti stjórnarmenn, aðrir en formaður aðild sinni á kjörtímabilinu er þeim heimilt að sitja í stjórn fram að næsta aðalfundi. Stjórnarkosningar eru leynilegar og fara fram á aðalfundi. Heimilt er þó að kjósa rafrænt í stjórn og fastar nefndir séu fleiri en einn í framboði miðað við sæti. Kosið skal um mest tvo stjórnarfulltrúa og einn varamann í hvert sinn og sitja þeir 2 ár í senn. Formaður skal kosinn til tveggja ára, sjá nánar 7. grein laga IÞÍ um kosningar og atkvæðagreiðslu.
Tilgangur
Megintilgangur með starfi stjórnar er að samræma og stýra málefnum félagsins samkvæmt lögum þess, siðareglum og venjum. Stjórnin ber ábyrgð á störfum félagsins og formaður og varaformaður leiða samninganefndir þess. Varaformaður er staðgengill formanns.
Markmið
Markmið með starfi stjórnar er að tryggja að starf félagsins sé í samræmi við hlutverk þess samkvæmt lögum IÞÍ. Félagið hefur þannig það hlutverk að standa vörð um og efla:
- Iðjuþjálfunarfagið, gæði þess og þróun
- Faglega hagsmuni, samvinnu og samheldni félagsfólks
- Réttindi, kjör og starfsaðstæður félagsfólks
- Iðju, þátttöku, heilsu og velferð einstaklinga, hópa og samfélaga
- Þátt iðjuþjálfa í þróun og stefnumótun velferðarmála
- Samstarf og tengsl við nema í iðjuþjálfunarfaginu
- Samstarf og tengsl við önnur fag- og stéttarfélög hér á landi og félög iðjuþjálfa í öðrum löndum
Stjórn IÞÍ hefur forgöngu um félagsstarfið, veitir félaginu forystu og annast gögn þess og eignir. Framkvæmir samþykktir þess og ákvarðanir og kemur ályktunum þess á framfæri við rétta aðila. Stjórn fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins á milli aðalfunda. Í því felst meðal annars, að boða til reglulegra funda með félagsfólki, sjá um rekstur félagsins, upplýsa félagsmenn um málefni er þá varðar, hafa samskipti við stjórnvöld, ýmis samtök og stofnanir. Formaður og varaformaður ásamt samninganefnd sem kosin er af trúnaðarmannaráði fer með forsvar varðandi kjarasamninga við atvinnurekendur á opinberum og almennum vinnumarkaði.
Fundir stjórnar
Á fundum stjórnar eru tekin fyrir, rædd og afgreidd fyrirliggjandi mál. Allar ákvarðanir sem teknar eru fyrir hönd félagsins skulu afgreiddar af stjórn. Formaður útbýr og sendir dagskrá til stjórnarmanna fyrir fundinn. Stjórn fundar alla jafna á tveggja vikna fresti og oftar ef þörf krefur. Auk þess eru lengri vinnufundir einu sinni til tvisvar á ári ef þörf þykir. Stjórnarfundur telst löglegur ef minnst þrír fulltrúar sitja hann, þar af annað hvort formaður eða varaformaður.
Starfandi stjórn: Sjá stjórn og nefndir