Formaður Iðjuþjálfafélags Íslands nýtur trausts áfram
Aðalfundur
Iðjuþjálfafélags Íslands (IÞÍ) fór fram þann 16. mars síðastliðinn á hótel KEA
Akureyri og með rafrænum hætti. Fyrir aðalfundinn var boðið upp á fyrirlestur
með Sóleyju Tómasdóttur kynja- og fjölbreytileikafræðingi. Hún fjallaði um ómeðvitaða
hlutdrægni og áhrif hennar á hegðun okkar, framkomu og ákvarðanir og þar af
leiðandi vinnustaðamenningu.
Aðalfundurinn sjálfur var vel sóttur, tæplega 50 þátttakendur komu á KEA og um tíu voru í fjarfundi. Þóra Leósdóttir formaður gaf kost á sér þriðja kjörtímabilið í röð og var sjálfkjörin. Þóra hlaut mikinn meirihluta atkvæða félagsfólks í formannskosningum 2019 og hefur leitt félagið síðan.
Prýðilega tókst að útvega framboð í fastar nefndir og stjórnir félagsins. Tveir aðalfulltrúar í stjórn og einn varafulltrúi endurnýjuðu umboð sitt. Dagskrá var hefðbundin og samkvæmt lögum IÞÍ. Í skýrslu stjórnar kom meðal annars fram að mikil eftirspurn er eftir iðjuþjálfum til starfa víða í samfélaginu. Fjöldi iðjuþjálfa sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár en iðjuþjálfar sem starfa hjá sjálfseignarstofnunum og félagasamtökum eru fleiri en áður sem og þeir sem starfa sjálfstætt eða hjá einkafyrirtækjum.
Undir lok fundar voru þrír félagar heiðraðir fyrir framlag sitt og vel unnin störf í þágu iðjuþjálfunarfagsins hér á landi. Heiðursfélagarnir eru þær Guðrún Kristjana Hafsteinsdóttir, Kristjana Fenger og Snæfríður Þóra Egilson. Síðar á árinu munu þær stöllur halda erindi um störf sín og feril.